Skýrsla OECD um framlög til menntamála og yfirvofandi kennaraverkfall

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:22:27 (382)

1997-10-13 15:22:27# 122. lþ. 7.1 fundur 44#B skýrsla OECD um framlög til menntamála og yfirvofandi kennaraverkfall# (óundirbúin fsp.), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:22]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem að sjálfsögðu valda mér miklum vonbrigðum. Það er í sjálfu sér nokkuð fróðlegt að ráðherrann vill efast um þær tölur sem koma fram í nefndri skýrslu. Vissulega er það rétt að ekki er mikill tími til þess að ræða þessar tölur hér, en ég vona svo sannarlega að ráðherra sannfærist um að við leggjum alls ekki nægjanlegt fé til menntamála. Á sama tíma og sátt er að nást um það, bæði í þessu þjóðfélagi sem öðrum, að menntamál séu lykill að framtíð bæði einstaklinga og samfélags og lykill að samkeppnishæfni þeirra þá virðist þessi ríkisstjórn ætla að draga lappirnar í þessu máli.

Varðandi kennara þá má það vel vera, hæstv. forseti, að ekki hafi í samkomulaginu verið gert ráð fyrir því að ríkisvaldið komi meira að þessum málum, en það er alveg ljóst að þarna er um uppsafnaðan vanda að ræða og miðað við þær alþjóðlegu niðurstöður sem liggja fyrir er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að af þessu verkfalli verði.