Reykjavíkurflugvöllur

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:25:33 (385)

1997-10-13 15:25:33# 122. lþ. 7.1 fundur 45#B Reykjavíkurflugvöllur# (óundirbúin fsp.), GHall
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:25]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Í till. til þál. um flugmálaáætlun vegna áranna 1998--2001 kemur fram að áætlað fjármagn til Reykjavíkurflugvallar á árinu 1998 er 29 milljónir, þ.e. fyrir flugbrautir og hlöð.

Í skýrslu sem Flugmálastjórn lét vinna um ástand flugbrauta, akbrauta og flughlaða sem kom út í mars 1995 eru þær niðurstöður að ástand flugbrautanna sé alls óviðunandi. Þegar það ástand er borið saman við þá staðla sem Alþjóðaflugmálastofnunin setur um skilyrði og/eða mælist til að notaðir séu fyrir flugvelli þá kemur í ljós að Reykjavíkurflugvöllur er á mörkum þess að nothæfur sé. Því beini ég þeirri spurningu minni til hæstv. samgrh. hvað hann hyggist nú gera við það fjármagn, þessar 29 milljónir sem ætlaðar eru hér til flugbrauta og hlaða Reykjavíkurflugvallar í ljósi þess að sú upphæð dugar ákaflega skammt. Það er mjög mikil nauðsyn á að aðalflugvöllur landsins sé þannig úr garði gerður að ekki stöðvist flug héðan frá Reykjavík og út á hina dreifðu byggð. Því spyr ég hæstv. samgrh.: Hvað er fram undan varðandi öryggismál á Reykjavíkurflugvelli og framkvæmdir þar?