Endurskoðun vegáætlunar

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:31:02 (391)

1997-10-13 15:31:02# 122. lþ. 7.1 fundur 46#B endurskoðun vegáætlunar# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til samgrh. eins og síðasti ræðumaður en að þessu sinni um vegamál. Þannig háttar til að hæstv. samgrh. komst á spjöld sögunnar hér á síðasta ári þegar hann lagði fram hálfa vegáætlun, og bar við ýmiss konar óvissu í þjóðmálum, gott ef ekki pólitískri óvissu, a.m.k. vegapólitískri óvissu, og kvaðst ekki geta séð lengra fram í tímann en tvö ár þótt venjan hafi verið að leggja fram áætlanir til fjögurra ára.

En nú ber svo illa við að jafnvel þessi hálfa vegáætlun hæstv. samgrh. er úrelt orðin á einu ári því að í forsendum fjárlagafrv. er tekið fram að óhjákvæmilegt reynist að taka upp seinni helminginn af hálfu áætluninni. Og hvers vegna, herra forseti? Vegna þess að þar er boðaður aukinn niðurskurður á framkvæmdafé til vegamála.

Hæstv. samgrh. gaf hins vegar þá yfirlýsingu þegar hann var að fylgja úr hlaði sinni hálfu vegáætlun eða í umræðu um hana að hann mundi gera það að algjöru forgangsmáli að leggja fram nýja, endurskoðaða og heildstæða vegáætlun í upphafi þessa þings og að hann stefndi að afgreiðslu hennar fyrir jól, fyrir Þorláksmessu. Nú bólar ekkert á vegáætluninni að öðru leyti en því að niðurskurðurinn er kynntur í fjárlagafrv. og þykja auðvitað ekki góð tíðindi.

Ég vil því spyrja hæstv. samgrh.: Hvað líður efndum á því loforði að leggja vegáætlunina fram strax í byrjun þings og að afgreiða hana fyrir jól? Nú þegar er að verða hálfur mánuður liðinn af þinghaldinu og skammt er í kjördæmaviku þegar þing verður ekki að störfum. Því er ljóst að hæstv. ráðherra hefur ekki langan tíma til að koma áætluninni inn í þingið og af stað eigi hún að fá einhverja umfjöllun hér fyrir mánaðamót.