Endurskoðun vegáætlunar

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:33:23 (393)

1997-10-13 15:33:23# 122. lþ. 7.1 fundur 46#B endurskoðun vegáætlunar# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er nú stundum svolítið erfitt að ná þessum örsvörum frá hæstv. samgrh. Þetta minnir mig á diktafóninn minn þegar hann festist á vitlausum hraða eins og stundum gerist og ég þarf að stilla hann af til þess að tíðnin bjagist ekki á því sem sagt er.

Hæstv. samgrh. var að ég held að segja að þetta væri til skoðunar í ríkisstjórn og hann byggist við að þetta yrði afgreitt fyrir áramót. Það er svo sem gott og blessað en ég hefði gjarnan viljað fá einhver fyllri svör, eins og hvenær áætlunin birtist hér á borðum þingmanna og auðvitað síðan hvað í henni muni felast og hvaða forsendur verði fyrir því að afgreiða hana með einhverjum sómasamlegum hætti fyrir jól. En mér er ljóst að hæstv. samgrh. er mjög upptekinn af því þessa dagana að þróa þennan stíl sinn, þessi örsvör, þannig að ég skal ekki þýfga hann um miklar málalengingar að sinni í þessum efnum. (Gripið fram í: Það mættu fleiri gera.)