Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:59:25 (397)

1997-10-13 15:59:25# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:59]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það hverjir koma að þessu, ef vandinn er sá hvort menn eiga að snúa sér til Verkmenntaskólans á Akureyri eða einhvers annars til að leita sér upplýsinga og fá fótfestu í áhuga sínum til þess að stunda fjarnám eða leggja á ráðin um fjarkennslu, þá vil ég vekja athygli á því að Íslenska menntanetið og Kennaraháskóli Íslands hafa alveg sérstöku hlutverki að gegna í þessu efni miðað við þær ákvarðanir sem menntmrn. hefur tekið. Með því að fela Kennaraháskóla Íslands rekstur Íslenska menntanetsins var mönnum einnig vísað á þann skóla og þá stofnun til að leita sér ráða.

Ég held því að þegar kemur að því að framkvæma þessa stefnu hafi verið staðið þannig að málum að menn eiga ekki að vera í neinum vafa um það hvar ábyrgðin varðandi einstaka þætti liggur. Ég held að stefnan í sjálfu sér liggi skýr fyrir og það þurfi engin að fara í grafgötur um það hver stefna menntmrn. er. Hún kemur fram í bókinni Í krafti upplýsinga. Hún kemur einnig fram í þeim áherslum sem ráðuneytið leggur þegar það auglýsir styrki bæði fyrir þróunarsjóð grunnskólans og þróunarsjóð framhaldsskólans. Í báðum tilvikum hefur ráðuneytið beint umsækjendum inn á þær brautir að þeir séu að þróa eitthvað á þessu sviði, að nýta þessa nýju tækni í þágu skólastarfs. Þannig að við höfum markvisst unnið að því að ýta undir í skólunum að þessi þróun eigi sér stað og það er mikil gerjun í skólunum að þessu leyti. Ég held í sjálfu sér að opinber nefnd breyti ekki neinu um það efni. Hún væri kannski frekar til þess fallin að menn stoppuðu og segðu: ,,Nú, eigum við að bíða eftir einhverju nefndaráliti til þess halda áfram fremur en að halda áfram á þessari braut og halda áfram þeirri mjög öru þróun sem er í skólakerfinu að þessu leyti?``