Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 16:01:26 (398)

1997-10-13 16:01:26# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:01]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef á tilfinningunni að hér sé einhver misskilningur á ferðinni, einfaldlega vegna þess að mér finnst óþarfi af ráðherranum að vera í varnarstöðu gagnvart því sem ég er að leggja til og tala um því ég þykist hafa farið slíkum viðurkenningarorðum um það starf sem hefur verið unnið í menntmrn. að hann þurfi nú ekki að kvarta undan því. Það sem ég er fyrst og fremst að tala um er að menn fari frá orðum til athafna. Það er búið að marka stefnu að ýmsu leyti, það er alveg rétt, en hæstv. ráðherra veit það alveg jafn vel og ég að það eitt út af fyrir sig nægir ekki þótt gott sé. Það þarf líka að vísa veginn hvernig menn halda síðan áfram. Ég hef enga trú á því að það mundi stoppa þá áhugamenn af sem þegar eru starfandi innan skólakerfisins þó svo að ráðherrann setti fólk til starfa til þess að lesa úr þeirri reynslu sem þegar er orðin til og búa til vegvísa til framtíðar að. Ég held einfaldlega að það stoppi þá ekkert af. Hins vegar eru býsna margir skólar í landinu og skólamenn sem ekki eru farnir af stað en eru að leita og eru að spyrja. Og þessum aðilum tel ég að við þurfum að svara.