Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 16:12:11 (401)

1997-10-13 16:12:11# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:12]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu þáltill. um fjarkennslu til að jafna aðstöðu til náms. Að mestu leyti byggir grg. á lýsingu á því merka þróunarstarfi sem fram hefur farið við Verkmenntaskólann á Akureyri í fjarkennslu. Ég leyfi mér sem gamall skólamaður að fullyrða að fátt hvað snertir breytingar á kennsluháttum hefur verið jafnmikið til framfara og það þróunarstarf sem farið hefur fram við Verkmenntaskólann á Akureyri á þessu sviði í tengslum við fjarkennslu. Fjarkennslan byggir á því, eins og fram kom í framsöguræðu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, að einstaklingur situr við tölvu og hefur aðgang að upplýsingum óháð tíma og rúmi. Þetta býður með öðrum orðum upp á einstaklingsmiðaða kennslu. En eins og kunnugt er má segja að í grundvallaratriðum hafi skipulag og sé allt skipulag skóla á öllum skólastigum má segja miðað við að tiltekinn hópur nemenda mæti á tilteknum tíma og fylgi leiðbeiningum kennara síns. Fjarkennsla felur í sér grundvallarbreytingu hvað þetta varðar. Ég fagna því að þessi tillaga er komin fram og bendi á að í fjarkennslu við Verkmenntaskólann á Akureyri munu vera nemendur búsettir í Namibíu, annar nemandi búsettur í Mexíkó, sá þriðji í Jökuldal og þannig má áfram telja. En það er einmitt eðli fjarkennslunnar að vera óbundin landamærum, tíma og rúmi.

Ég fagna þessari þáltill. og vek um leið athygli á því að fyrir skömmu samþykkti Samband ungra framsóknarmanna ályktun á sömu nótum og hér um ræðir. Ég vil taka mjög undir það sem hér hefur verið nefnt, bæði í ræðum hv. framsögumanns og hæstv. menntmrh., um nauðsyn þess að gera úttekt á stöðu þessara mála. En ég vil gera sérstaklega að umtalsefni fjóra þætti sem ég tel mikilvægt að skoða sérstaklega og vil líta á sem forsendur fyrir því að fjarkennsla geti orðið raunveruleg og almenn hér á landi og að við getum nýtt okkur þau sóknarfæri sem hin nýja tækni felur í sér.

Ég vil þá í fyrsta lagi nefna aðgengi að tölvum eins og reyndar hefur verið minnst á af fyrri hv. ræðumönnum. Fjarkennsla felur í sér möguleika til jafnréttis en til þess að jafnrétti til náms geti átt sér stað hvað þetta snertir þurfa nemendur að hafa aðgang að tölvum. Ég tel rétt að vekja athygli á því að fjarnámið felur í sér að nemendur eigi að geta stundað nám án þess að þurfa að koma í tiltekið húsnæði, svo sem skólahúsnæði á fyrir fram ákveðnum tíma. Frelsi einstaklingsins til þess að geta sinnt námi á þeim tíma sem honum hentar er e.t.v. lykilatriði í þessu. Þess vegna er mjög mikilvægt að nefnd sú sem um getur í þáltill. taki sérstaklega til skoðunar hvernig megi tryggja aðgengi allra nemenda að tölvum. Í því sambandi minni ég á þáltill. sem var borin fram á síðasta þingi, 1. flm. hennar var hv. þm. Pétur H. Blöndal, þar sem gert var ráð fyrir aðgerðum til þess að auka og tryggja aðgengi nemenda að tölvum. Það er lykilatriði.

[16:15]

Í öðru lagi tel ég mikilvægt að kennarar komi með opnum huga til þessa starfs og ég vísa þá til þess sem ég sagði áður að fjarkennsla felur í sér grundvallarbreytingu á eðli og starfi kennarans. Þess vegna er afskaplega mikilvægt við þróun fjarkennslunnar að þar komi kennarar með opnum huga til námsins og kennarar ásamt hugbúnaðarfólki verði leiddir saman til að þróa þessa nýju leið kennsluhátta.

Í þriðja lagi vil ég svo nefna tölvusamskiptin. Svo sem bent hefur verið á felst í því töluverður kostnaður að eiga samskipti á veraldarvefnum. Það er kostnaður fyrir heimili og það er kostnaður fyrir fyrirtæki. Ég tel fyllilega koma til greina að ríkisvaldið greiði beinlínis niður kostnað við tölvusamskipti enda munu þau að mestu leyti vera í höndum ríkisfyrirtækisins Pósts og síma hf.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um upplýsingahraðbrautina og nú draga menn ekki í efa að réttlætanlegt sé að ríkið leggi fjármuni til þess að leggja vegi um sveitir og bæi landsins og leyfi síðan þegnum landsins að keppa á þeim vegum. Með sama hætti tel ég eðlilegt að líta á tölvusamskipti sem samgönguæð 21. aldarinnar og á þeim forsendum er eðlilegt að a.m.k. verði tekið til athugunar hvort ríkið greiði ekki niður slíkan kostnað og fái hann margfaldan til baka. Þannig verður tölvuhugbúnaðurinn og tölvusamskiptin öll aukin hvernig sem á er litið. Rétt er að minna á í þessu samhengi að íslensk tölvuhugbúnaðarfyrirtæki, en þar er líklega hvar mestur vöxtur í íslensku atvinnulífi, eiga í harðri samkeppni við sambærileg fyrirtæki erlendis. Ég tel að þetta þurfi að athuga vegna þess að óhjákvæmilega er um að ræða kostnað vegna tölvusamskipta sem fylgir sérkennslu.

Í fjórða lagi sem forsendu vil ég svo leyfa mér að nefna menntun kennara. Það hlýtur að koma til skoðunar hjá nefnd þeirri sem um ræðir, verði af skipan hennar, að fjalla um hver staðan er varðandi menntun kennara í tölvufræðum. Við höfum heyrt bæði úr þessum ræðustól sem og fjölmiðlum hvernig búið er að kennurum, m.a. í tölvunarfræðum við Háskóla Íslands. Það gengur einfaldlega illa að ráða kennara og mun vera afskaplega illa búið að þeim. Það segir sig sjálft að þróun á sviði tölvusamskipta og tölvubúnaðar mun verða afskaplega hæg ef ekki er vel búið að kennurum á þessu sviði. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem eðlilegt væri að nefnd sú sem hér er til umræðu tæki til skoðunar verði af skipan hennar.

Ég hef nefnt fjögur atriði sem ég tel vera algera forsendu fyrir því að fjarkennsla með möguleikum fjarskiptatækninnar verði raunhæf og vil nefna að lokum örfá atriði sem ég tel vera kosti tengda fjarkennslu. Í fyrsta lagi mun líklega fátt auka jafnrétti jafnmikið til náms og öflug fjarkennsla. Þar á ég við að nemendur óháðir tíma og rúmi geti sótt eftir sínum eigin aðstæðum, eftir sínum eigin áhugamálum nám hvenær sem þeim hentar.

Ég nefni í öðru lagi breytta kennsluhætti, í þriðja lagi endurmenntun eins og hefur verið rakið fyrr í dag. Ég nefni möguleika skóla á því að sækja kennara út fyrir landsteinana þar sem tæknin felur í sér að kennarar þurfi ekki að hafa fasta búsetu í nánd við viðkomandi skóla. Ég nefni að ekki krefst mikils húsnæðis heldur væri einungis um að ræða fjárfestingu í hugviti og mannauði en ekki steinsteypu. Ég mun því styðja þessa tillögu og vona að hún renni ljúflega í gegnum þingið.