Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 16:27:02 (406)

1997-10-13 16:27:02# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., TIO
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:27]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um fjarkennslu sem ber vitni um lofsverðan áhuga á þessu sviði. Það má segja sem svo að upplýsinga-, tölvu-, viðskipta- og samskiptatæknin sem stendur nú til boða hafi gerbreytt aðstöðu samfélaga eins og þess íslenska til þess að bjarga sér í heiminum. Það á bæði við um kennslumálin og uppeldismálin en það á ekkert síður við um atvinnumálin.

Hér er því velt fyrir sér hvort ekki sé rétt að skipa nefnd og er lagt til að nefndin geri tillögur um það hvernig nýta megi fjarkennslu á grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigi til þess að jafna aðstöðu til náms. Nú vill svo vel til að einmitt á því sviði sem er til umfjöllunar hefur verið unnið mjög mikið starf, bæði á vegum ríkisstjórnarinnar í heild en einnig á vegum menntmrn. og á vegum fjmrn. og heilbrrn. Það hefur verið mörkuð stefna í þessum málum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og hefur verið birt og hún hefur verið kynnt þingmönnum þannig að þeir fara ekki í grafgötur um það hver er stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum upplýsingasamfélagsins. Þessi stefna liggur ljós fyrir og framkvæmd stefnunnar er þegar hafin. Eins og hefur komið fram í umræðunum hefur verið gefin út stefnumörkun menntmrn. í þessum málaflokki að því er það varðar.

Einnig er búið að setja af stað tilraunaverkefni um fjarkennslu, bæði á háskólastigi, á framhaldsskólastigi og á grunnskólastigi. Í kjölfar þessara verkefna og þessarar stefnumörkunar sem er mjög langt komin, þá liggur að sjálfsögðu fyrir mögulega mikil reynsla um það hvernig er hægt að nýta fjarkennslu á grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigi og þess vegna er mjög brýnt að þessu tilraunastarfi verði haldið áfram og því komið í fast form og síðan dregnar niðurstöður af því hvernig til hefur tekist. Því má segja að þessi umræða sem er gagnleg fyrir þingið fjalli um svið sem hefur verið sinnt hér á landi af óvenjumikilli alvöru og festu. Við stöndum að þessu leyti langtum framar velflestum Evrópuþjóðum og það á rætur sínar í ýmsum íslenskum staðreyndum. Fyrir það fyrsta eins og ég hef vikið að, þá er búið að vinna af hálfu stjórnvalda í þessu máli mjög mikið starf. Mjög margir komu að því starfi þannig að við höfum þegar mótað stefnuna af hálfu stjórnvalda.

[16:30]

Fyrirtækin hafa verið afar viljug til þess að nýta sér þessa tækni og Íslendingar hafa sem þjóð verið mjög viljugir til að fjárfesta í tölvutækni. Við stöndum meðal fremstu þjóða í tölvueign og tölvunýtingu og það hefur vakið mikla athygli erlendis hversu langt við höfum náð á þessu sviði. Ég nefni sem dæmi að jafnvel þótt nágrannaþjóðir okkar standi mjög framarlega í þessum efnum, og þar tel ég Finna sérstaklega en það má einnig nefna Svía og Norðmenn, þá hefur íslenska menntakerfið og fjarkennslan hér á landi engu að síður vakið mikla athygli í Norðurlandaráði og reikna ég með að út úr því muni koma tillögur ráðsins um að menn snúi sér til Íslendinga í þessum málum meira en verið hefur hingað til.

Það ber einnig að geta þess að ýmsar Evrópuþjóðir eru nú að setja sér áfanga í þessum efnum sem þær vænta að verði náð á næstu öld, áfanga sem við höfum þegar náð nú í sambandi við útbreiðslu á þessari tækni. Það sem er kannski mikilvægast að fram komi er að ákveðin svið skipta meginmáli í sambandi við fjarkennsluna og möguleika á nýtingu þessarar nýju tækni. Það eru kannski fyrst og fremst tvö svið sem skipta meginmáli. Þau hafa verið nefnd í þessari umræðu. Ég ætla að endurtaka það.

Í fyrsta lagi skiptir öllu máli að almennt tölvulæsi ríki í samfélaginu, það skiptir öllu máli. Tæknin þarf að vera fyrir hendi, en síðan þurfa menn að vera reiðubúnir til þess og hafa þekkingu til þess að nýta sér tölvurnar. Það er ljóst að hluti af hverju samfélagi er haldinn vissum fordómum gegn tölvum og hefur verið notað yfir þetta hugtakið tölvufælni sem er talið að hrjái vissan hluta af samfélaginu. Það þarf að yfirvinna þessa erfiðleika, það þarf að jafna samkeppnisaðstöðu að því er varðar þessa tækni og þá er náttúrlega verið að tala um það hvernig menntakerfið muni bregðast við. Bæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og í því starfi sem unnið hefur verið innan menntmrn. er tekið sérstaklega á þessum þætti og skólarnir hafa sýnt að þeir hafa mjög mikinn áhuga á þessu sviði. Þeir hafa gengið eins langt til móts við þessa nýju tækni og fjárveitingar til þeirra hafa leyft og náð miklum árangri.

Annað atriði sem skiptir miklu máli er flutningsgeta kerfanna. Þriðja atriðið sem skiptir meginmáli er það sem hefur verið rætt hér að nokkru, þ.e. verðlagningin. Út um allan heim er verið að breyta ríkisfyrirtækjum í einkafyrirtæki og við þær breytingar er meginreglan sú að flutningakerfið sem ríkisvaldið hefur að sjálfsögðu fjárfest í verður jafnan eign þessara fyrirtækja, en jafnframt tryggja samkeppnisreglur að aðrir komi að þessu á jafnréttisgrundvelli. Það er rétt sem hér hefur komið fram að auðvitað munu þessar reglur tryggja, og alþjóðleg samkeppni mun einkum og sér í lagi tryggja, að menn muni ekki geta farið neinar sérstakar leiðir í verðlagningu. Engu að síður er það svo að allmörg þjóðfélög sem eru nú að móta stefnuna í þessum efnum hafa beinlínis á stefnuskrá sinni að greiða einhvern veginn fyrir verðlækkun á þessu sviði, kannski ekki með beinum niðurgreiðslum en greiða með ýmsum hætti fyrir lágri verðlagningu á þessu sviði vegna þess að menn hafa fyrir sér reynsluna í Bandaríkjunum þar sem afar lágt verð á þessum viðskiptum hefur ýtt undir langmesta notkun sem nokkurs staðar er í heiminum á tölvutækni. Það er því mjög mikilvægt að það komi fram hér og nú að verðlagningin á þessari þjónustu er atriði sem við þurfum að vaka yfir. Við þurfum að fylgjast með því mjög vel að verðlagningin sé hófleg. Við höfum ýmsar leiðir til þess að fylgjast með því og hvetja til þess að hún sé hófleg. Ég held því að sú umræða sem hér hefur verið sé gagnleg. Málið er komið af stað. Nú þegar liggur fyrir mikil þekking á þessu sviði og við eigum að geta með því að leyfa þessu að fara í ákveðinn, góðan og stöðugan farveg og gera úttekt á þessu með vissu millibili, dregið af því þann lærdóm sem nauðsynlegur er.