Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 16:54:12 (410)

1997-10-13 16:54:12# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:54]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér hefur farið fram góð umræða um þarft mál og tekur mið af þeim geysilegu breytingum sem hafa átt sér stað í ég vil segja öllum heiminum í samskiptum fólks með tilkomu internetsins. Tekin hafa verið til umræðu mörg atriði sem þetta varða en þó vantar enn þrjú sem ég vildi gjarnan koma inn á.

Í fyrsta lagi er sú hagræðing sem felst í því að hanna námskeið eða útbúa námskeið í fjarkennslu þar sem tugir þúsunda nemenda geta sótt námskeiðið. Það er ekkert því til fyrirstöðu að jafnvel 100 þúsund nemendur geti sótt námskeið sem er á alnetinu. Þetta er náttúrlega alveg gífurleg hagræðing frá því sem við enn búum við og hefur í sjálfu sér mjög lítið breyst í aldanna rás, að einn kennari kenni einum bekk, 20--30 nemendum. Fyrirlestur hans er ætlaður eingöngu þessum 20--30 nemendum, og ef hann vandar sig mjög mikið fá þeir frábæra kennslu en aðrir ekki. Með fjarkennslunni á internetinu geta tugir þúsunda sótt þetta námskeið og það ætti að hvetja góða og metnaðargjarna kennara til þess að búa til frábæra fyrirlestra, frábær kennslugögn og leggja í það mikla vinnu.

Annað atriði sem vantar í þessa umræðu er gerð kennsluefnis. Nú hefur orðið mjög mikil þróun í gerð kennsluefnis og mikið af kennsluefni tekur mið af þeirri þróun sem hefur orðið í gerð tölvuleikja fyrir börn og unglinga og er þannig að kennslan verður að leik. Nú er loksins komin í gildi vísan ,,Það er leikur að læra`` vegna þess að í forritinu sjálfu er hvatning til nemandans að læra og hún er slík að ég hef upplifað það hjá átta ára barni að það þarf að setja kvóta á kennsluna, þ.e. hve mikið má sitja við tölvuna á dag, vegna þess að forritið er svo skemmtilegt að barnið gæti verið allan daginn í tölvunni. Á það bæði við um forrit til að kenna ensku sem og forrit sem er alveg frábært og kennir félagsfræði og felst í því að hanna borg. Litli maðurinn er sem sagt borgarstjóri og leggur skolplagnir, raflagnir, vegi, byggir skóla, leikhús og annað slíkt, allt sem er nauðsynlegt í einni borg og leggur á skatta.

Þetta kennsluefni, sem er forrit, er mjög ódýrt í framleiðslu. Það kostar 100 kr. að búa til geisladisk, tæplega þó, og er miklu ódýrara heldur en ef efnið er prentað í bók. Svo má dreifa þessu ókeypis á internetinu þannig að kostnaðurinn við kennsluna verður ekki nema brot af því sem er í dag, bæði það að nemendur í tugþúsundatali geta sótt sama fyrirlesturinn og svo eru námsgögnin svona miklu ódýrari.

Þriðja atriðið sem mér virðist hafa vantað inn í þessa umræðu er vandamálið varðandi þóknun og hvatningu til kennara að búa til góða og frábæra fyrirlestra. Það vantar inn í núverandi kerfi, og það yrði kannski verkefni þeirrar nefndar sem sett yrði á laggirnar. Hvernig frábærum kennurum er umbunað fyrir að leggja það á sig að búa til góðan fyrirlestur eða vera með góða kennslu. En það verður náttúrlega mjög brýnt að koma því á þannig að nemandinn borgi t.d. fyrir þátttöku í námskeiðinu á einhvern hátt. Það er kannski það verkefni sem þarf að leysa þannig að frábærir kennarar, sem við eigum mjög mikið af, leggi sig í líma og séu hvattir til þess að búa til góð námskeið.

Í þessu sambandi vil ég minna á þáltill. sem ég flutti á síðasta þingi um að allir nemendur í íslenska skólakerfinu verði komnir með aðgang að tölvu innan þriggja ára, það yrði sett sem markmið. Ég hyggst flytja hana aftur en hún var ekki útrædd á síðasta þingi.

Að lokum vil ég þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir flutning þessarar tillögu sem ég tel vera mjög þarfa.