Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 16:59:23 (411)

1997-10-13 16:59:23# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:59]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil koma í lok þessarar umræðu til þess að fagna því hversu ágæt hún hefur verið og hversu margt gagnlegt hefur komið fram í máli þeirra sem hér hafa rætt mikilvægi þess að við þróum fjarkennslu og nýtum til þess að jafna aðstöðu til náms. Það er nefnilega laukrétt sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir nefndi áðan að sitt er hvað að ýta undir tiltekna þróun sem getur þá verið handahófskennd og að ganga skipulega til þess að jafna aðstöðu fólks til náms. Það gerist ekki án þess að menn taki þar ákveðna afstöðu eða móti tiltekna stefnu og þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að menn skoði þá reynslu sem þegar er orðin, leggi inn ýmsar þær ágætu hugmyndir sem fyrir liggja um það hvernig er hægt að gera þetta og móti síðan markvissa stefnu um það hvernig við ætlum að nota þessa tækni og þá þekkingu og reynslu sem við höfum þegar til þess að jafna aðstöðu til náms. Það þarf að athuga ýmsa þætti sérstaklega, herra forseti.

Eins og ég gat um í framsöguræðu minni þá er hið merkilega starf innan Verkmenntaskólans á Akureyri enn þá undir hattinum tilraunastarf. En við hljótum að spyrja: Hvað á síðan að taka við og hvert á að stefna? Ég veit að menn eru að velta þessu fyrir sér mjög víða, bæði í þeim ágæta skóla og í menntmrn. en það þarf að horfa til þess hvert á að stefna með hliðsjón af því hvað menn vilja. Það þarf líka að velta því fyrir sér hvernig menn vilja halda áfram skipulegum tilraunum og hvernig framhald þessarar þróunar sem orðin er á að verða. Á hún bara að verða tilviljanakennd? Á hún bara að fara eftir því hvort einhver skóli eða jafnvel einstaklingur innan skóla sýnir áhuga eða vilja menn hafa markmið, eins og það sem hér er sett fram, í forgrunni?

Menn hafa vikið hér að tæknimálum og búnaði sem vissulega er stórt mál sem þarf líka að skoða og svo hafa menn getið um kennaramenntun og hlutverk kennarans, hið breytta hlutverk kennarans. Ég er ekki viss um að allir sjái fyrir sér hversu gjörbreytt hlutverk kennarans verður við þær aðstæður sem fjarkennsla og nýir möguleikar munu færa þessari stétt. Hv. þm. Pétur Blöndal vék lítillega að þessu áðan og gerði það af þeim áhuga og þeirri þekkingu sem hann hefur sýnt hér m.a. með flutningi þeirrar tillögu sem hann vitnaði í. En hlutverk kennarans verður vissulega gjörbreytt og allt annað en nú er. Hv. þm. vék að því áðan að það gæti verið í því fólgin nokkur hagkvæmni að hægt væri að nýta sama fyrirlestur eða sama námskeið fyrir býsna stóran hóp, en hlutverk kennarans í fjarkennslunni er líka að taka við og veita ábendingar og veita einstaklingsaðstoð og einstaklingskennslu, bara á allt annann hátt en verið hefur og í rauninni með mun virkari hætti. Þannig erum við að tala um gjörbreytingu á þessu hlutverki og ég held eins og ég sagði áðan að menn séu ekki búnir að sjá fyrir allar þær breytingar sem geta orðið á hlutverki kennarans og verða, þó svo að hitt muni alltaf verða á sínum stað líka, þ.e. þau persónulegu samskipti sem eru hluti af menntun allra.

Námsefnisgerðin hefur hér verið nefnd og mér er sagt að þar sé einn akkilesarhællinn í dag, að hann sé ekki bara það sem hæstv. menntmrh. gat um áðan, þýðing á efni fyrir tölvur eða möguleikar af þeim toga heldur ekki síður hitt að kennarar fái leiðbeiningu um það hvernig hefðbundið námsefni er gert tölvutækt til þess að hægt sé að ná árangri í kennslunni. Þarna hafa sumir náð prýðilegum árangri en aðrir eru enn að fikra sig áfram og það er vöntun á leiðsögn hvað þetta varðar. Sama má segja um kennaramenntunina. Hún þarf að taka frekara mið af þessum breytingum.

Það er athyglisvert að enda þótt framhaldsskólanámið sem þegar er komið af stað í fjarnámi sé fyrst og fremst bóknám eða tengt bóknámi og þá til stúdentsprófs þá eru menn líka farnir að þreifa sig inn á það að styðja við starfstengda námið. Þróunarstarf í þá veru er til og þarf að styrkja vegna þess að það er mikið rétt sem hér hefur margoft verið ítrekað í umræðunni, þ.e. mikilvægi þess að endurmenntun, fullorðinsfræðsla, símenntun og starfstengt nám geti líka notið góðs af þessari nýju tækni. Þá er um það ógetið sem menn hafa bent á að það þarf ekki bara að skoða námsefnið heldur þarf líka að skoða námskröfur sem gerðar eru og að þær séu samræmdar þeim námskröfum sem gerðar eru í hefðbundnu námi, ekki þannig að þær séu eins heldur samræmdar þannig að niðurstöður þeirra séu jafnmarktækar.

Í nýsamþykktum framhaldsskólalögum er getið um fullorðinsfræðslumiðstöðvar sem framhaldsskólarnir geta sett á laggirnar og þessar fullorðinsfræðslumiðstöðvar eru einmitt vettvangur þar sem möguleiki væri að nýta með sérstaklega áhrifaríkum hætti ýmislegt af því sem menn hafa verið að benda á sem möguleika hér í dag, möguleika til menntunar, til ýmiss konar upplýsingar og stuðnings við hefðbundið nám.

Í tengslum skólana, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla þurfum við að hafa fjarkennslumiðstöðvar. Það kom fram áðan í máli hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar þar sem hann rifjaði upp fyrirspurn sína til menntmrh. um fjarkennslu á háskólastigi að það kom honum á óvart hversu lítið slík kennsla var farin af stað hérlendis nema þá í Kennaraháskóla Íslands og ég vil bæta við einnig í Fósturskólanum. Þarna er reyndar verið að vinna markvisst. Háskólinn á Akureyri er búinn að gera samstarfssamning við Verkmenntaskólann á Akureyri og ætlar sér að hasla sér völl á þessu sviði en það þarf að vera ákveðin miðstöð svipað og Verkmenntaskólinn er orðinn fyrir framhaldsskólastigið, miðstöð sem sér um þessa kennslu, tengir saman nemendur og kennara hvar svo sem nemandinn kann að vera staddur og hvar svo sem kennarinn kann að vera staddur. Hvort sem þessir aðilar eru erlendis eða hérlendis eru kostirnir fyrst og fremst þeir að hægt er að nýta krafta kennara hvar sem hann er staddur á landinu eða jafnvel í heiminum nánast til þess að kenna efni sem nemendur eru að nýta sér út um allt land og jafnvel út um allan heim eins og við höfum þegar dæmi um.

Herra forseti. Ég vil þakka þann ágæta áhuga sem hér hefur komið fram hjá m.a. hv. þm. Hjálmari Árnasyni sem nefndi ýmis gagnleg atriði sem vert er að hv. menntmn. skoði í umfjöllun sinni um tillöguna.

Ég vil að lokum undirstrika það sem ég hóf þessa seinni ræðu mína á sem er í takt við það sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði áðan. Það er gott svo langt sem það nær að ýta undir þessa þróun með þeim hætti sem gert hefur verið. Hins vegar þarf ákveðna formfestu fyrir öll þessi þrjú skólastig, grunn-, framhalds-, og háskóla, ef menn vilja nýta skipulega þá þekkingu og tækni sem fyrir hendi er til að jafna aðstöðu til náms. Það gerist ekki af sjálfu sér og eins og ég hef getið um fyrr þá er hvati þess að þessi tillaga er flutt hér fyrst og fremst spurningar, óskir og væntingar skólamanna, sveitarstjórnarmanna og annarra um allt land sem hafa þrátt fyrir þær góðu hugmyndir sem reifaðar hafa verið hér í dag og menn virðast álíta að liggi á hvers manns borði og þrátt fyrir hið ágæta starf sem unnið hefur verið í menntmrn., ekki fengið þau svör, leiðsögn eða markmið sem verið er að leita eftir úti um landið, í sveitarfélögunum þar sem menn vilja gjarnan fagna nýrri tækni og möguleikum með því að nýta hana til þess að styrkja byggðina, til þess jafna möguleikana, til þess að jafna möguleika þeirra sem þar búa til náms.