Landafundir Íslendinga

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 17:47:06 (415)

1997-10-13 17:47:06# 122. lþ. 7.6 fundur 12. mál: #A landafundir Íslendinga# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[17:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tel að það þingmál sem hv. þm. Svavar Gestsson flytur hér sé með merkari þingmálum sem hafa verið flutt á þessu þingi og ég lýsi því yfir að ég styð það af miklu kappi. Það er fyrir löngu kominn tími til þess að menn geri eitthvað til að lyfta siglingaafrekum hinna fyrstu Íslendinga á þann stall sem þeim raunverulega ber því að skólakerfinu og okkur hefur löngum yfirsést að Íslendingar eru fyrsta hafsiglingaþjóð veraldar, a.m.k. sem við þekkjum. Áður höfðu menn fyrst og fremst siglt með ströndum fram, en það er ekki fyrr en menn fara að sigla til Íslands sem hafsiglingarnar hefjast. Um þetta hefur reyndar verið ritað langt mál og snjallt í bókum sem hið háa Alþingi kostaði útgáfu á og voru skrifaðar af Jóni Dúasyni.

Það voru auðvitað dæmi um það að menn höfðu farið langt í norður og farið á milli álfa þegar þeir hröktust undan veðri og líklegt er t.d. að hin merka sögn um eyjuna Thule sem Pýþeas frá Massilíu fann, hafi orðið til þannig. Það er auðvitað alveg klárt að papar náðu mjög langt í norður, en að líkindum einnig vegna þess að þá hrakti í fyrstu norður. Það var ekki fyrr en þeir Naddoður og Garðar Svavarsson og síðar Flóki Vilgerðarson sigldu til Íslands sem þessar eiginlegu hafsiglingar tóku að hefjast og það er mjög fróðlegt að lesa það t.d. í Landnámu hversu vel Flóki Vilgerðarson undirbjó sína för. Hann hafði með sér leiðarstein. Hann hafði með sér hrafnana sem þá voru meðal merkustu siglingatækja og hann hafði líka með sér suðureyskan mann. Hann sigldi fyrst frá Smjörsundi þar sem hann átti bú sitt, þar sem eru mörk Rogalands og Hörðalands, til Suðureyja með þessum ágæta suðureyska manni sem þekkti þá leið. Það reyndar kostaði hann talsvert því hann hafði þrjár dætur sínar með sér og ein þeirra drukknaði í því vatni í Skotlandi sem enn ber hennar nafn. Hún hét Geirríður. Hann fór síðan þaðan til Færeyja þar sem hann gifti eina dóttur sína manni og þau urðu forfeður Þrándar í Götu, frægasta Færeyings fyrr og síðar. Og þaðan fór hann til Íslands og hann fór tvær ferðir til Íslands.

Upp úr þessu hefjast þessar miklu siglingar. Það sem fylgdi í kjölfarið má auðvitað kalla þjóðflutninga. Þessar ferðir til Íslands byggðu upp mestu reynslu í hafsiglingum sem þá var að finna í heiminum að því er ég tel.

Þegar menn tóku síðan að sigla til Grænlands, þá var það eins og hv. þm. nefndi. Eiríkur rauði var útlægur ger en menn höfðu þá líka áður séð það sem þeir töldu vera Gunnbjarnarsker. Það voru auðvitað ekkert annað en efstu toppar Grænlands sem menn höfðu séð og kölluðu Gunnbjarnarsker, enda eru ekki, ef ég man rétt, nema tæpir 290 kílómetrar á milli þessara tveggja landa þar sem styst er og hægt að sjá frá Vestfjörðum í stilltu veðri.

Hv. þm. gat þess að hann ætti erfitt með að velja á milli hvort það hefði verið Bjarni Herjólfsson frá Drepstokki í Flóa fremur en einhver annar sem mætti kalla fundarmann að Vínlandi eða Norður-Ameríku. En ég tel að hv. þm. ætti að fara sér hægt þegar hann er að reyna að lyfta Bjarna Herjólfssyni á þennan stall vegna þess að ferð Bjarna var honum hvorki til frægðar né vegsemdar. Allar götur síðan hefur honum verið legið á hálsi fyrir þá staðreynd að hann hrakti þarna suður undir Norður-Ameríku og sá hið skógi vaxna land, en hann vildi ekki fara í land og skoða það þó hásetar hans hafi viljað það og síðan hafa menn í 1.000 ár verið að skammast yfir þessu. Og ég held að það sé Eyrbekkingum síst til framdráttar að ætla að fara að eigna sér fund Norður-Ameríku með þessum hætti.

En það var í kjölfarið sem menn byrjuðu þessar miklu siglingar og það er fróðlegt að lesa sagnirnar af því hvernig þetta var vegna þess að menn höfðu alveg nákvæmar siglingaleiðir. Þeir tóku mið af Snæfellsnesi, sigldu síðan beint að Grænlandi og fóru suður fyrir. Síðan sigldu þeir upp með vesturströnd Grænlands og þegar þeir fóru yfir til Norður-Ameríku þá fóru þeir alla leið norður að Diskóeyju. Þar náðu þeir nefnilega straumi yfir og niður eftir. Það er alveg klárt að þarna fóru menn margoft bæði til þess að sækja við þar sem þeir kölluðu Markland og dró nafn af þessum mikla skógi og er sennilega Nýfundnaland í dag og eins til Hellulands þar sem þeir lýsa mjög grjótkenndu landslagi sem bersýnilega er það sem heitir Baffinseyja nú. Síðan fóru þeir náttúrlega nokkrir þarna suður eftir, þar sem þeir kölluðu Vínland og það var þar sem Tyrkir, Þjóðverjinn í liði Leifs Eiríkssonar, týndist. Hann var reyndar fóstri hans og þeir unnust mjög. Sagan segir frá því þegar Tyrkir týndist og Leifur skammaði félaga sína fyrir að hafa ekki leitað að honum og fór sjálfur að leita að honum og fann hann koma til baka með hendurnar fullar af vínþrúgum og kallaði síðan landið Vínland.

Það er líka merkilegt að sjá að í þessum sögum er hvergi minnst á hafís. Það er einu sinni talað um Ísa-Steingrím. Það er vegna þess að þá var svo auðvelt að sigla þarna. Það var svo gott veður. Það var enginn rekís. Það er ekki fyrr en kemur fram á 13. öldina og upplýsingar úr Grænlandsjökli sýna einmitt að hitafar hefur þá versnað mjög, að menn þurfa að breyta þessum siglingaleiðum og þeir gerðu það einmitt út af rekísnum. En það er merkilegt líka að hugsa til þess að þarna skapaðist samfélag íslenskra manna sem lifði sennilega í fast að 400--500 ár, líklegast 5--6 þúsund manns þegar mest lét. Þetta var óhemjulega duglegt fólk. Úr báðum þessum byggðum sem þarna urðu til Eystri- og Vestribyggð, héldu menn í vetursetu langt norður undir þar sem núna heitir Thule. Þar voru menn í fyrsta lagi að afla rostungstanna og svarðreipa úr rostungsskinnum sem þeir seldu fyrir mikinn pening. Þeir voru líka að afla skinnvarnings, sérstaklega hvítabjarnarfelda. En það var annað sem þeir gerðu líka. Þeir veiddu hvítabirni. Þarna hafa menn fundið leifar af húnagildrum og eru reyndar sögur um það í jarteiknabók Þorláks helga. Þessa húna tóku þeir og tömdu og sigldu með þá til Evrópu og seldu. Sá sem gat komið tömdum hvítabirni yfir til Evrópu varð auðugur maður það sem eftir lifði hans ævi. Það eru sagnir um það t.d. að í Tower of London var hvítabjörn í keðju á miðöldum og veiddi fisk í ánni Thames. Það var eins konar ,,túrista-attraction``. Og alla leið niður í barbaríinu hjá soldáninum í Alsír eru sagnir, góðar heimildir, um lifandi hvítabirni. Hvaðan komu þeir? Þeir komu auðvitað allir frá þessum grænlensku Íslendingum. Það leikur enginn vafi á því.

Margar minjar er enn að sjá í Grænlandi. Þeir hlóðu vörður eins og landar þeirra hér á Íslandi og í einni slíkri fundu menn rúnafjöl þar sem á voru rist nöfn þriggja manna og þar sagði: Hér komum við á þessum tiltekna degi í aprílmánuði. Og þetta var snemma 14. aldarinnar.

Það er líka gott dæmi um það hvað þeir notuðu rúnirnar lengi að einu sinni fannst fjöl sem á var rist rúnum: ,,Dasaður var ek, þá ek dró þik.`` Það er ekki lengra síðan en í sumar að menn grófu þarna upp fjöl sem bar nafn merkasta og frægasta Íslendings sem nokkurn tíma hefur verið uppi því að á henni stóð með rúnaletri: Björk.

Ég tel, herra forseti, að það sé verulega gott framtak hjá Dalamanninum hv. þm. Svavari Gestssyni að reyna að minnast þessara merkustu afreka Íslendinga frá upphafi okkar sögu á þennan hátt. Ég held að nýtt árþúsund eigum við að nota til þess að lyfta þessu á ákveðinn stall. Það er skammarlegt að þegar maður les söguna eins og hún er kennd í grunnskólum og framhaldsskólum, þá er nánast ekkert um þetta fjallað og það er eitt af því sem þarf líka að taka til endurskoðunar. Ég held, herra forseti, að minningu Leifs Eiríkssonar verði vel haldið á lofti með því að Íslendingar taki þátt í því að byggja upp bæ föður hans, Eiríks Þorvaldssonar og með því að koma upp Vínlandssafni í Dalasýslu þaðan sem hann kom. En það er ekki síður tekið veglega á minningu Leifs með því að hvetja með þessum hætti til uppbyggingar fyrstu kirkju Íslendinga í Grænlandi sem ber einmitt nafn móður Leifs, Þjóðhildarkirkja.