Landafundir Íslendinga

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 18:12:45 (420)

1997-10-13 18:12:45# 122. lþ. 7.6 fundur 12. mál: #A landafundir Íslendinga# þál., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:12]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 15. þm. Reykv. fyrir alveg ótrúlega skemmtilega ræður sem hann hefur flutt í þessu máli og vil láta um leið í ljós að ég sakna þess að við skulum ekki hafa komið inn ákvæði í þingsköp sem við höfum velt fyrir okkur hér, þingflokksformenn, um að hægt sé að haga ræðutíma eftir aðstæðum og að þegar mikilvæg mál koma upp og sérstaklega fróðleg að þá sé hægt að lengja ræður eins og nauðsynlegt er að mati forseta. Hv. þm. hefði mín vegna mátt halda mikið lengur áfram því þetta var fjarska fróðlegt sem hann hafði að segja okkur og ég þakka honum fyrir það. Og ég þakka honum líka fyrir stuðninginn og ég heyri að það er ekkert út í loftið að velta því fyrir sér að heilbr.- og trn. fái þetta mál til meðferðar því það er alveg bersýnilegt að þar eru á fleti fyrir þeir sem kunna eitthvað fyrir sér í þessum fræðum. Og í öðrum þingum sem við miðum okkur nú stundum við þá er það nú reyndar þannig að málum er vísað til nefnda eftir því sem líklegt er að menn hafi áhuga á þeim. Svo er t.d. í breska þinginu mikið frekar en að menn séu þar með þetta njörvaða fastnefndakerfi eins og við erum með hér.

En í alvöru talað um nefndina þá finnst mér að við þurfum bara að velta þessu fyrir okkur. Mér finnast ábendingar hv. þm. Árna Mathiesens líka athyglisverðar, þ.e. að þetta fari til allshn. Vandinn er hins vegar sá að það er mikið málakraðak í allshn., hef ég grun um. Hún er afskaplega hlaðin og hefur margt að sýsla þannig að ég hygg að hinar kæmu ekki síður til greina, þ.e. menntmn. og samgn. og mun ég ráðgast við forseta Alþingis um það.

Það er hins vegar nauðsynlegt að kynna þessa umræðu strax uppvaxandi kynslóð úr Dalasýslu, sem greinilega er hafið hér í hliðarsölum, og fara sem víðast með það um landið, vona ég.

[18:15]

Ég vil líka koma lauslega inn á það sem hv. þm. Sturla Böðvarsson nefndi varðandi fornleifauppgröftinn. Það er mjög mikilvægt að honum verði haldið áfram duglega. Það er reyndar mikið verk óunnið í uppgreftri á Grænlandi, þ.e. á Brattahlíðarsvæðinu. Það hefur verið unnið mjög vel í Vesturbyggð Grænlands eins og ég veit að hv. þm. þekkir. Verulegum fornminjum hefur verið bjargað undan eyðileggingu á undanförnum árum og kostað til þess gríðarlegum fjármunum, en ég hygg að á Grænlandi eigi enn þá eftir að verja verulegum fjármunum til þess að grafa í Brattahlíð og á Brattahlíðarsvæðinu og þess vegna hefur verið mjög erfitt og vandasamt að finna stað fyrir Eiríksbæinn og Þjóðhildarkirkjuna sem reist yrðu í Brattahlíð. Það verður að sjálfsögðu ekki á áætluðum rústum þeirra heldur annars staðar í Brattahlíð sem ótrúlega fáir Íslendingar hafa heimsótt þó að það sé ekki nema kortersferð þaðan með báti frá Narsarsuaq eins og menn þekkja.

Ég vil líka í þessu sambandi halda því til haga með Eyrarbakka og Bjarna Herjólfsson þó að hann hafi brostið til þess vit liggur mér við að segja eða kannski öllu heldur kjark að fara í land eins og segir frá í Grænlendingasögu. Hann kom þrisvar að landi og var ævinlega spurður: Eigum við að fara hér í land? Nei, sagði hann, og skipverjar urðu reiðir og þreyttir á honum og sögðu: Okkur vantar vistir og þá sagði hann: ,,Að öngu eruð þér því óbirgir.`` Og niðurstaðan varð svo sú að þeir fóru hvergi í land og endaði með því að þeir fóru ekki í land fyrr en þeir töldu víst að þeir væru komnir til Grænlands. Ég held nú að menn eigi þrátt fyrir þetta að velta því fyrir sér að taka undir hugmyndir Eyrbekkinga um að minnast með einhverjum hætti Bjarna Herjólfssonar frá Drepstokki í Flóa.

Það er líka merkilegt í þessu sambandi og í sambandi við Grænland sérstaklega sem ég vil nefna að það er auðvitað sjálfsagt að kalla fleiri aðila til fjármögnunar á þessu verkefni í Brattahlíð heldur en í ríkissjóð Íslands og grænlensku landstjórnina. Ég bendi á það sem hefur þegar vakið mikla athygli og menn hafa tekið eftir í Bandaríkjunum að í rauninni er Þjóðhildarkirkja fyrsta kirkjan sem reist er í Ameríku, í heimsálfunni Ameríku. Á þessu hefur verið vakin athygli og ég hef frétt af því að stjórnvöld í Bandaríkjunum geti hugsað sér að minnast þessa sérstaklega með því að taka þátt í kostnaði við þær framkvæmdir sem eru fyrirsjáanlegar í Brattahlíð.

Varðandi hins vegar uppgröft í Haukadal vestur, þá hygg ég að það hafi verið unnið í því núna að undanförnu. Það eru reyndar komin 100 ár síðan var byrjað að grafa þar. Einhvers staðar sá ég að Þorsteinn Erlingsson hefði verið þar með sínu föruneyti rétt fyrir síðustu aldamót og það hefði í rauninni verið fyrsti uppgröfturinn á Eiríksstöðum, rétt fyrir ofan Stóra-Vatnshorn í Haukadal. Síðan hefur honum verið haldið áfram og ef ég man þetta rétt þá hygg ég að það sé væntanleg núna alveg á næstu vikum greinargerð frá fornleifafræðingum Þjóðminjasafnsins um síðasta uppgröftinn sem var í gangi þarna sl. sumar, ég hygg undir forustu Guðmundar Ólafssonar. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt áður en hafnar verða framkvæmdir á þessum svæðum að tryggilega verði gengið frá því að fornleifar spillist ekki að neinu leyti og að menn hafi í þaula skoðað viðkomandi svæði.

Varðandi það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði um áðan að minnast siglingaafreka Íslendinga, þá held ég að sú saga sé hvergi nærri nógu ljós okkur, ég held að hún sé bara engan veginn ljós. Ég held að það sé sjálfstætt málefni fyrir utan þetta þó að það sé kannski partur af þessu máli. Ég held að menn eigi að velta því mjög fyrir sér að skrá þessa sögu því að það skiptir miklu máli fyrir þjóðina í dag að það sé skýrt fyrir henni hvernig hún lagði margt til þróunarinnar í gegnum aldirnar. Það styrkir þjóðina bæði út á við og sjálfsmynd hennar inn á við. Ég tel því að hér sé á ferðinni stórmál fyrir okkur.

Herra forseti. Ég endurtek það að ég treysti mér ekki á þessu stigi málsins til að gera tillögu um nefnd en mun bera mig saman við forseta áður en að því kemur að ákvörðun verður tekin um hana. Ég endurtek þakkir mínar til allra þeirra sem tóku þátt í þessari skemmtilegu umræðu.