Óundirbúin fyrirspurn um flugmálaáætlun

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 13:31:58 (426)

1997-10-14 13:31:58# 122. lþ. 8.91 fundur 51#B óundirbúin fyrirspurn um flugmálaáætlun# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[13:31]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna þess sem gerðist í umræðu um fyrirspurnir til ráðherra, þ.e. óundirbúnar fyrirspurnir í gær, þar sem stjórnarþingmaður hóf umræðu við ráðherra á grundvelli upplýsinga úr flugmálaáætlun sem liggur fyrir stjórnarþingflokkunum. Það eru upplýsingar sem stjórnarandstaðan hefur ekki séð. Ég vil reyndar, herra forseti, þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að vekja athygli á því hvernig ráðherra hans hyggst standa að málefnum Reykjavíkurflugvallar, þ.e. að fresta löngu tímabærum endurbótum. En mig langar til að spyrja hæstv. forseta: Eru þetta eðlileg vinnubrögð að hefja umræðu um þingmál sem er til kynningar í ríkisstjórnarþingflokkunum? Ég er ekki mjög þingreynd en ég veit að hæstv. forseti er með þingreyndari mönnum og gæti þá kannski upplýst okkur um það hvaða reglur gilda um málsmeðferð eins og þessa sem hér er til umræðu. Eru mál sem eru til umræðu í þingflokkum stjórnarliða ekki trúnaðarmál? Og er eðlilegt að hefja umræðu um þessi mál í þinginu áður en allir þingmenn hafa séð viðkomandi þingmál?