Óundirbúin fyrirspurn um flugmálaáætlun

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 13:40:19 (432)

1997-10-14 13:40:19# 122. lþ. 8.91 fundur 51#B óundirbúin fyrirspurn um flugmálaáætlun# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[13:40]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það var nú ekki meiningin að fara út í efnislega umræðu um Reykjavíkurflugvöll enda fagnaði ég því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson skyldi koma fram með þessa fyrirspurn. Aftur á móti má gera ráð fyrir að hann hafi lagt fyrirspurnina fram vegna þess að hann hafði ákveðið þingskjal undir höndum sem var til umfjöllunar í þingflokkunum. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess. En vegna þess að hér inni eru mér þingreyndari menn þá óskaði ég eftir upplýsingum um það hvort einhverjar ákveðnar reglur giltu í tilvikum sem þessum.

Ég ætla ekki að fara að gera stórmál út úr þessu, en þetta vakti furðu mína vegna þess að ég vissi að þetta mál var til umræðu í stjórnarflokkunum, en að sjálfsögðu geta menn spurt um hvaðeina þegar óundirbúnir fyrirspurnir til ráðherra eru annars vegar. En af því að þetta mál kom til umræðu sem enn er til umfjöllunar í stjórnarflokkunum, herra forseti, og er ekki komið fyrir sjónir allra þingmanna og upplýsingarnar sem hæstv. ráðherra gaf eru á grundvelli þessa þingskjals, þá fannst mér ástæða til að fá svör við þessu frá hæstv. forseta.