Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 14:10:44 (435)

1997-10-14 14:10:44# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:10]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur nú lokið við að gera grein fyrir fjáraukalagafrv. þessa árs og ég vil aðeins fara nokkrum orðum um það frv. en aðalumræðan um það mun væntanlega fara fram að lokinni athugun málsins í fjárln. síðar á þessu hausti.

Það sem ég vil einkum víkja að eru tekjuforsendur þessara fjárlaga sem hér er verið að sækja um að gera breytingar á. Það sem stingur í stúf er hversu ótraustar forsendur fjmrn. og ríkisstjórnarinnar hafa reynst vera við fjárlagagerðina. Þetta er annað árið í röð sem grundvallarforsendur fjárlaganna reynast verulega rangar svo nemur háum fjárhæðum varðandi tekjuhlið ríkissjóðs. Það er hv. þingmönnum eflaust enn í fersku minni að árið á undan þessu fjárlagaári, 1996, reyndust forsendur þeirra laga einnig mjög rangar miðað við það sem reynd varð á. Fjárfesting hafði verið áætluð rétt um 7% en reyndist vera um 24% og einkaneysla hafði verið áætluð um 4% en reyndist vera 7% þegar upp var staðið. Niðurstaðan varð líka sú að tekjur ríkissjóðs á árinu 1996 urðu tæpum 13 milljörðum meiri en árið þar á undan, 1995. Það er ekkert lítil aukning tekna, herra forseti, eða um 11%. Það er um 11% aukning tekna á einu ári. Og það er gríðarleg aukning, ef menn velta þessu fyrir sér, sem stafar fyrst og fremst af röngum forsendum um framvindu efnahagsmála. Í ljósi þess hversu illa tókst til við þetta atriði við gerð fjárlaganna 1996 hefði mátt ætla að á næsta ári þar á eftir, fyrir árið 1997, mundi fjmrn. vanda sig betur við það að leggja forsendur fyrir fjárlagafrv. sem yrðu meir í takt við raunveruleikann en var árið áður. En ef við skoðum hver reyndin hefur verið eins og hún blasir við núna, þá blasir við okkur sú mynd að aftur hefur fjmrh. mistekist að koma með sæmilega trúverðugar efnahagsforsendur fyrir fjárlagafrv. sínu.

Ég vil nefna nokkrar tölur sem er að finna í fjáraukalagafrv. og fjárlögum fyrir næsta ár, 1998, þessu til staðfestingar. Það var gert ráð fyrir því að á síðasta ári mundi einkaneysla aukast um 3,5%, reyndin varð 5%. Það er ekki bara 1,5 prósentustig mælt á sama hlutfalli, heldur þýðir þetta um 30% meiri aukningu en fjmrh. gerði ráð fyrir. Landsframleiðslan hafði verið áætluð aukast um 2,5% en reyndin varð miklu meira, nærri 100% meiri aukning eða 4,5%.

[14:15]

Kaupmáttur ráðstöfunartekna hafði verið áætlaður aukast um 1,5% en aukning varð þrisvar sinnum meiri, eða 4,7%. Fjárfesting hafði verið áætluð aukast um 5,5% á milli ára en jókst um 18,6%, eða liðlega þrisvar sinnum meira en fjárlög ársins 1997 gerðu ráð fyrir. Það er alveg með ólíkindum, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn skuli mistakast svona herfilega tvö ár í röð að leggja fjárlagafrv. sitt fram á efnahagslegum grunni sem síðan reynist verða réttur. Hvernig má það vera að menn spá svona vitlaust tvö ár í röð? Og það eru ekki smáskekkjur hvort árið um sig.

Ég verð að segja, herra forseti, að það leitar auðvitað á hugann að menn hafi kannski verið vísvitandi að spá vitlaust. Ég ætla ekkert að fullyrða um það því að það væri nokkuð mikið sagt. En ég vil þó segja að sú hugsun leitar á mann að vísvitandi hafi menn dregið úr því hvaða góðæri var í vændum hjá ríkissjóði og í krafti þess getað haldið fram gömlu tuggunni sinni, eins og hæstv. ríkisstjórn hefur gert bæði þessi ár, um að nú beri að skera niður ýmsa þarfa útgjaldaliði eins og barnabætur sem hafa alveg sérstaklega orðið fyrir barðinu á ráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar. Hvaða brýna nauðsyn bar til að skerða þann lið, barnabætur, sem eru öflugasta tekjujöfnunartæki sem ríkissjóður hefur yfir að ráða, þau ár sem þetta mikla góðæri flæddi yfir ríkissjóð. Það flæddu inn í ríkissjóð milljarðarnir umfram áætlun. Og þrátt fyrir þetta peningaflóð var skorið niður. Þeir sem höfðu knappt skyldu fá knappara. Það er efnahagsstefnan. Það er sú efnahagsstefna sem blasir við okkur þegar við förum yfir þetta fjáraukalagafrv. Niðurskurðurinn á þessu sviði var algerlega tilefnislaus.

Þetta vildi ég, herra forseti, draga alveg sérstaklega fram til þess að menn mættu hafa í huga þegar farið verður að vinna frekar að fjárlögum fyrir næsta ár hér í þinginu, að fjárln. vandi sig alveg sérstaklega við að fá upplýsingar frá öðrum en hæstv. fjmrh. um hverjar efnahagshorfurnar verða fyrir næsta ár. Það er alveg sérstök ástæða til þess að fara fram á að hv. fjárln. afli upplýsinga frá öðrum aðila en fjmrn. um hver sé líklegust framvinda efnahagsmála á næsta ári.

Ég minni á að minni hluti fjárln. óskaði eftir því við fjmrn. fyrir 3. umr. fjárlaga 1997, sem hér er upplýst að í reyndust verulega vanáætlaðar tekjur svo nemur milljörðum kr., að fá upplýsingar um endurskoðaða tekjuáætlun á grundvelli þeirra stóriðjuframkvæmda sem ljóst var að voru þá að fara af stað. Hvaða svör fengum við frá hæstv. fjmrh.? Við fengum nei, við reiknum þetta ekki út. Það var látið gott heita. Menn hefðu nú betur látið reikna þetta út, séð fyrir hver niðurstaðan hefði orðið. Og ég minni á að í nefndaráliti minni hluta fjárln. var reynt að leggja mat á þann tekjuauka sem fyrirsjáanlegt var að ríkissjóður mundi fá vegna aukinna umsvifa umfram það sem spáð var og spá okkar hefur reynst furðunákvæm svo ekki sé meira sagt í ljósi þess að við höfum ekki öflug tæki til þess að meta þetta. Fleira ætla ég ekki að segja, herra forseti, um tekjuhlið fjárlaga 1997 í ljósi þess fjáraukalagafrv. sem hér liggur fyrir.

Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að fáeinum útgjaldaliðum og leggja áherslu á eitt atriði sem er grundvallaratriði í samskiptum ríkisstjórnar og þings, atriði sem tekist var á um við gerð nýrra laga um fjárreiður ríkisins á sl. vori. Það er að það er Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið en ekki ríkisstjórn. Það er grundvallaratriði sem menn höfðu í huga á sl. vori og vildu beina málum í þann farveg að ríkisstjórnin beygði sig undir þá staðreynd. Því miður koma í ljós í þessu fjáraukalagafrv. allmörg dæmi þess að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun um útgjöld upp á milljónatugi í einstökum tilvikum án þess að hafa nokkra heimild fyrir þeim ákvörðunum, hrint ákvörðunum sínum í framkvæmd og eytt peningunum áður en komið er til þings. Þetta er náttúrlega, herra forseti, mikill dónaskapur og vanvirðing við Alþingi og það þarf að halda áfram því starfi sem þingmenn unnu að á sl. vori, að temja ríkisstjórnina í þessum efnum. Það er engin lagaheimild fyrir því að eyða 60 millj. kr. í endurbyggingu á Stjórnarráðshúsinu umfram það sem fjárlög leyfðu. Það er engin lagaheimild fyrir því að verja tugum milljóna til að undirbúa heimssýningu í Lissabon. Og það er engin lagaheimild fyrir því að verja stórum fjárhæðum til tveggja sendiráða, annars vegar í Helsinki og hins vegar í Washington. Það er alveg kristaltært í þessum tilfellum öllum að ríkisstjórnin hefur engan lagagrundvöll að standa á en hún gerði þetta samt í trausti þess að stjórnarþingmennirnir mundu láta þetta yfir sig ganga. Ég minni á að við 1. umr. fjárlaga kom fram hjá varaformanni fjárln. að hann var ekki sáttur við þetta og sendi ríkisstjórninni tóninn. Ég tel að stjórnarandstaðan eigi að standa á bak við þá þingmenn í stjórnarliðinu sem vilja fara að lögum og halda aftur af ríkisstjórninni. Og af því að hæstv. fjmrh. var að monta sig af því að það færu svo miklir peningar til vegamála vil ég rifja upp eitt mál af þessum toga sem lýtur að vegamálum.

Ég man ekki betur en hæstv. ríkisstjórn hafi ákveðið á einum fundi að setja 200 millj. kr. í vegaframkvæmdir á Skeiðarársandi, 200 millj. kr. sem ekki er heimild fyrir í fjárlögum. Það munaði ekki mikið um að slá út 200 millj. kr. í þetta. En svo er endalaust verið að jagast á þessum litlu sjúkrastofnunum úti á landi, reyta af þeim milljónir eftir milljónir. Það stendur ekki á ráðherrunum að nudda upp 60 millj. kr. af því að ríkissjóður sé svo fátækur, því þurfi að taka 60 millj. kr. af þessum litlu sjúkrastofnunum hringinn í kringum landið. En svo er hann allt í einu svo ríkur einn daginn að hann hendir 200 millj. í vegaframkvæmdir á Skeiðarársandi. Hvernig á nú að skilja svona háttalag, herra forseti? Það er ekkert lag á þessu fyrirkomulagi og kominn tími til þess að ríkisstjórninni verði gert það ljóst að Alþingi sættir sig ekki við vinnubrögð af þessu tagi öllu lengur.