Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 14:25:26 (436)

1997-10-14 14:25:26# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:25]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf að koma fram að lokinni ræðu hv. þm. Kristins Gunnarssonar að þegar hann er að tala um forsendur, þá hlýtur hann að vera að tala um forsendur þær sem reiknaðar eru hjá Þjóðhagsstofnun því að fjmrn. byggir fyrst og fremst og nær eingöngu á efnahags- og þjóðhagsforsendum Þjóðhagsstofnunar. Þetta verður hv. þm. að hafa í huga. Og ef hann vill beina skeytum sínum að einhverjum varðandi efnahagsforsendurnar, þá verður hann að snúa sér til Þjóðhagsstofnunar og fá upplýsingar hjá þeim hvernig þeir reikna út sínar þjóðhagsforsendur og hvernig þeir byggja upp sína þjóðhagsspá.

Sannleikurinn er nefnilega sá þegar litið er til fjárlaganna sem slíkra og afkomu þeirra að við höfum látið fara fram könnun á því á undanförnum árum hvernig afkoma ríkisins hefur þróast miðað við afkomuna á fjárlögunum, borið saman niðurstöðu fjárlaganna annars vegar og niðurstöðu útkomunnar í lok ársins hins vegar. Sannleikurinn er sá að þessar áætlanir hafa alltaf verið að batna. Það er sífellt minni munur á því sem kemur fram í fjárlögunum sjálfum þegar þau eru samþykkt í lok desember og útkomunni þegar upp er staðið.

Hér áður fyrr munaði stundum 10--15 milljörðum. Á undanförnum árum er munurinn miklu, miklu minni nema þegar það gerist sem auðvitað gerist einstöku sinnum og gerðist á þessu ári og því síðasta að 14 milljarðar eru teknir fram hjá fjárlagagrunninum. Þá hefur það verið skýrt nákvæmlega í hvert skipti. Þetta þarf að koma fram hér þegar verið er að gefa það í skyn að menn hafi viljandi gefið sér rangar forsendur. Ég vísa því til föðurhúsanna og tel að mjög faglega hafi verið að öllum hlutum staðið. Það er auðvitað ekki hægt í upphafi ársins að gefa sér eitthvað sem menn sjá ekki fyrir eins og t.d. það hvernig niðurstaðan verður í komandi kjarasamningum sem hafa auðvitað úrslitaáhrif í þessu.