Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 14:54:19 (441)

1997-10-14 14:54:19# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:54]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Örlítill misskilningur er fólginn í því að allar upplýsingar hafi legið fyrir um vegagerðina á Skeiðarársandi þegar vegáætlun var gerð. Það er alveg ljóst að rannsóknir áttu eftir að fara fram á því hvernig Gígjukvísl yrði brúuð á ný og brúarstæði yrði valið þar og hvers konar mannvirki yrði byggt. Þær forsendur breyttust. Því er þessi ákvörðun tilkomin. En ég ætla ekki að ræða um hana að öðru leyti. Hún kemur til umræðu og athugunar hér.

Ég átta mig ekki á hvers vegna sjúkrahúsin úti á landi eru dregin sérstaklega til samanburðar og það er ljóst að um þær ráðstafanir var fjallað við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1997. Þar voru þau mál afgreidd og vinnunefnd sett í að skoða framkvæmdina nánar. Sú framkvæmd kemur því ekki beinlínis fjáraukalögum við. Auðvitað má deila um það en ég ætla ekki að fara að deila um það við hv. þm. og allra síst í andsvari. Við fjárlagagerðina voru ráðstafanir vegna sjúkrahúsanna úti á landsbyggðinni ræddar og koma ekki inn á fjáraukalögin sérstaklega fyrr en þá ef tillögur koma frá heilbrrn. um útdeilingu á 30 millj. kr. sparnaði sem ætlunin var að skipta á þessu ári.