Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 14:56:44 (442)

1997-10-14 14:56:44# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:56]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki er miklu við að bæta um vegagerðina á Skeiðarársandi en í mínum huga er alveg ljóst að ríkisstjórnina skortir allar lagaheimildir til að taka ákvörðun um 200 millj. kr. útgjöld í sumar til þeirra verkefna.

Hvað varðar sjúkrahúsin sem hv. þm. undrast að ég skuli nefna sem samanburð vil ég nefna atriði til viðbótar því sem fram hefur komið um fyrirhugaðan sparnað á litlu landsbyggðarsjúkrahúsunum sem velta lágum fjárhæðum svo ekki sé meira sagt. Alþingi gekk frá fjárlögum fyrir árið 1997 á þann veg að ekki var skorin niður ein einasta króna upp í áætlaðar 60 millj. kr. niðurskurð. Alþingi útdeildi inn á hvert sjúkrahús á landsbyggðinni þeirri fjárhæð sem því bar. Hins vegar er áform ríkisstjórnarinnar að láta ekki spítalana fá fjárveitingarnar sem Alþingi hefur ákvarðað með því að draga frá hverju og einu tiltekna fjárhæð þannig að samtals verði það sem af er dregið 60 millj. kr. Það styðst ekki við ákvörðun Alþingis. Ákvörðun Alþingis er sú að skera ekki niður á þessum spítölum. En ríkisstjórnin ætlar að gera það samt. Ég veit ekki annað en að hún hafi gert það að svo miklu leyti sem liðið er á árið. Þess vegna finnst mér ekki úr vegi að bera þetta saman, að ríkisstjórnin sker niður það sem Alþingi hefur ákveðið að skuli ekki skera niður. Hún eyðir peningum án þess að spyrja Alþingi í hinu tilvikinu.