Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 15:47:57 (449)

1997-10-14 15:47:57# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Orð hæstv. fjmrh. eru sérstaklega ómerkileg. Ef þeim er beint að stjórnendum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eru þau alveg sérstaklega óviðeigandi og ómerkileg því að annars vegar er hæstv. fjmrh. að útskýra hvers vegna hann hafi staðið að samningi við sjúkrastofnanirnar í Reykjavík sem hafi tryggt þeim að fullu aukafjárveitingar vegna rekstrarhallans. Tóku menn sér þá ekkert fjárveitingavald þar? Er það bara úti á landsbyggðinni? Er það bara á Akureyri sem menn taka sér fjárveitingavald ef þeir lenda fram úr? (Fjmrh.: Líka annars staðar.) Já, en munurinn er sá að á grundvelli einhvers samnings fá sumir hallann að fullu bættan vegna fjárveitingavaldsins sem þeir tóku sér en annars staðar ekki samkvæmt þessu frv. hæstv. fjmrh. (Fjmrh.: Með því að lofa sparnaði á næsta ári.) Það voru náttúrlega engin svör sem komu hér frá hæstv. fjmrh., aldeilis engin svör. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst að starfsemi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hefur verið styrkt í samræmi við þá stefnumótun að þar skuli efla sérhæfða og stóra sjúkrastofnun, varasjúkrahús, og sjúkrastofnun fyrir norðan- og austanvert landið. Það hefur verið gert með pólitískum ákvörðunum um ráðningu fleiri sérfræðinga og útvíkkun starfseminnar. En menn hafa ekki fengið fjárveitingar til þess að mæta þeim auknu verkefnum.

Nú liggur fyrir að aðgerðum hefur fjölgað, innlögnum að norðan hefur fækkað á Landspítalanum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur svo miklu munar vegna þess að málin eru nú leyst oftar en áður var fyrir norðan. Það er ekki bara í gegnum starfsemi FSA heldur líka vegna þess að sérfræðingar á fleiri sviðum eru nú starfandi á svæðinu eftir ráðningu þeirra norður. Það er þess vegna er bein afleiðing af þegar teknum ákvörðunum fjárveitingavaldsins og löggjafans sem þarna sér stað en þá eiga menn ekki að fá fjárveitingar í samræmi við það. Þá heitir það að menn hafi tekið sér fjárveitingavald í munni hæstv. fjmrh. Mér finnst þetta einstaklega óviðeigandi orðalag hjá hæstv. fjmrh. og held að það hljóti að vera af einhverri vangá sem hann stillir hlutunum upp með þessum hætti. Ég trúi ekki að hæstv. fjmrh. ætli að gera þennan greinarmun á stofnunum sem var í raun og veru óhjákvæmilegt að ráða af orðum hans áðan.