Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 16:14:14 (455)

1997-10-14 16:14:14# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir það sem ég vil túlka sem heldur velviljuð orð í garð Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem ég hef gert að umtalsefni. Ég dreg ekki í efa að til hv. fjárln. hafi ekki borist fyrr en nýlega upplýsingar um þann vanda sem þar er við að glíma en mér er fullkunnugt um að allar upplýsingar um stöðu mála lágu fyrir hjá heilbrrn. og væntanlega einnig fjmrn. Ég treysti að sjálfsögðu hv. fjárln. til þess að fara rækilegan ofan í saumana á þeim gögnum sem liggja fyrir eða send verða til nefndarinnar.

Sveiflur í rekstri stofnana innan ára koma að sjálfsögðu fyrir og er eðlilegt að menn vilji líta yfir lengri tímabil þegar metinn er vandi sem upp kemur af þessu tagi. Hins vegar fullyrði ég að staðan hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er af öðrum toga en þeim sem flokka má undir óvæntar sveiflur. Staðreyndin er sú og ég hef séð óhrekjandi gögn um það að umfang starfseminnar hefur einfaldlega aukist verulega á síðustu 2--3 árum. Það er afleiðing af pólitískum ákvörðunum sem hafa m.a. verið teknar á Alþingi um að ráða fleiri sérfræðinga til starfa og auka umfang starfseminnar en rekstrarfjárveitingar hafa ekki fylgt á eftir. Það er ekki nóg að áætla bara fyrir laununum einum. Ef ráðinn er nýr sérfræðingur, þó að það sé gott og gilt, er áætlað fyrir launum hans í fyrstu umferð en þá kalla þau auknu umsvif sem tilkoma hans inn á heilbrigðisstofnunina valda á útgjöld á fleiri sviðum, meiri efnisnotkun, það eru fleiri aðgerðir, það er meiri stoðþjónusta af ýmsum toga. Nákvæmlega þetta hefur gerst, starfsemin hefur aukist og útgjöldin þar af leiðandi í kjölfarið á mörgum þáttum rekstrar stofnunarinnar. Ég vona sannarlega að hv. fjárln. verði réttu megin í þessu máli og leggi því lið að sanngjörn lausn finnist.