Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 17:06:14 (466)

1997-10-14 17:06:14# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:06]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé hægt að ljúka þessari umræðu án þess að hæstv. fjmrh. geri nánar grein fyrir þeim yfirlýsingum sem hann gaf hér undir lok umræðunnar um eftirlitsiðnaðinn sem hann kallar svo. Hann vísar þá væntanlega til Vinnueftirlitsins, til Hollustuverndar og til margvíslegs öryggiseftirlits sem er á vegum hins opinbera. Hvað stendur fyrir dyrum? Hvað hefur þeirri nefnd verið sett fyrir sem hann vísar til að starfi á vegum forsrn. um endurskoðun á þessari starfsemi allri? Á að halda áfram á þeirri braut sem ríkisstjórnin hefur þegar markað, þ.e. að einkavæða þessa þætti, að gera þessa starfsemi alla dýrari en hún hefur verið? Í lok síðasta árs var tekið mjög afdrifaríkt skref varðandi Rafmagnseftirlitið sem var einkavætt og hefur sannarlega orðið dýrara fyrir vikið. Ég held að það sé nauðsynlegt, hæstv. forseti, að hæstv. fjmrh. geri nánari grein fyrir því hvað hann á við.