Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 17:09:44 (468)

1997-10-14 17:09:44# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:09]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil mótmæla þessum makalausa málflutningi og makalausu útúrsnúningum af hálfu hæstv. fjmrh. Ég er að reyna að efna hér til málefnalegra skoðanaskipta. Ég er búinn að fylgjast með allri þessari umræðu og hef tekið þátt í umræðu um þessi efni og fjárlögin almennt og um fjármálastjórn Friðriks Sophussonar, hæstv. fjmrh., og jafnan reynt að setja mig inn í þau mál og færa rök fyrir mínu máli og ég vísa á bug útúrsnúningum af þessu tagi. En ég minni menn á að þegar þessir málaflokkar hafa verið til umræðu, mjög umdeildar ákvarðanir sem teknar hafa verið, eins og t.d. um einkavæðingu Rafmagnseftirlits ríkisins þá hefur af hálfu ríkisstjórnarinnar jafnan verið reynt að drepa umræðunni á dreif. Ég minni á lokaumræðuna um einkavæðingu Rafmagnseftirlits ríkisins sem fram fór hér í þingsölum í lok síðasta árs. Hvenær skyldi hún hafa hafist? Hvenær sólarhrings skyldi hún hafa hafist? Klukkan hálffjögur um nótt. Undir morgun. Þá voru þessi mál rædd og þá voru teknar afdrifaríkar ákvarðanir sem síðan hafa sannarlega leitt til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð og minna öryggis og lakara fyrir samborgarana. Mér er hins vegar fullkunnugt um þann ásetning ríkisstjórnarinnar að fylgja þeirri pólitísku stefnu að láta notandann jafnan greiða fyrir þjónustuna og markaðsvæða alla framkvæmdina. Þetta eru menn að reyna að gera í heilsugæslunni og velferðarþjónustunni með margvíslegum gjöldum þar. Síðan á líka að innleiða þetta í eftirlitsstarfsemi sem þeir kalla nú eftirlitsiðnaðinn. En ef það er einhver starfsemi sem ætti að vera óháð viðskiptahagsmunum þá er það einmitt þessi.