Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 17:36:04 (471)

1997-10-14 17:36:04# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:36]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki verið lengi á þessum fundi og mun þess vegna segja nokkur orð í andsvari þótt ég hefði fremur kosið að taka til máls síðar á fundinum. Það er ekkert á móti því að flytja ræðu á borð við þá sem hér var flutt, það er ekkert á móti því að flytja frv. á borð við það sem hér hefur komið fram og ég vil segja frá því að að sjálfsögðu kemur fram tillaga frá ríkisstjórninni. En að koma í ræðustól og tala um lítilsvirðingu og mannfyrirlitningu einstakra ráðherra í málinu er fyrir neðan virðingu hv. þm. Hann getur vel haldið á máli sínu með rökum, ég veit að hann er maður til þess, hann þarf ekki að grípa til orða eins og þessara jafnvel þótt einhverjir séu á pöllunum til að hlusta á hann. Það gleður fólk í andartakinu en það gerir ekkert gagn til lengri tíma.

Í raun og veru hefur það gerst að undanförnu að hækkun bóta til tryggingabótaþega hefur verið með slíkum hætti að kaupmáttaraukningin er meiri en almennt gerðist í kjarasamningum. Við rekum ábyrga stefnu, við horfum lengra fram í tímann. Nú þegar verðbólgan er horfin getum við áttað okkur á því hvað mun gerast á næstu áratugum. Við ætlum ekki að gera sömu skissurnar og gerðar voru í Evrópu þar sem ríkisstjórnir eru að segja af sér og ríkissjóðirnir að fara á hausinn vegna þess að þeir brugðust því vandamáli sem var fyrirsjáanlegt að aldurssamsetningin var að breytast. Það sem skiptir okkur mestu máli er að fjárlög verði hallalaus til að við þurfum ekki að borga 16 milljarða í vexti. Slíkir peningar verða ekki notaðir til þess að borga bætur. Við þurfum að auka sparnaðinn. Það höfum við gert með skattalögum og skattalagabreytingu og við þurfum að sameina lífeyrisbóta- og lífeyrissjóðakerfið. Um þetta ættum við að standa saman sem hér erum að störfum en ekki að standa hér upp og halda að við séum að gleðja fullorðið fólk með því að kalla hverjir aðra nöfnum eins og þeim að við séum að fyrirlíta fólk, að þetta sé mannfyrirlitlegt.

Ég óska eftir því að slík orð verði tekin til baka, hv. þm., því þetta er ekki málstaðnum til framdráttar.