Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 17:58:00 (476)

1997-10-14 17:58:00# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:58]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem hefur komið fram í umræðunni. Það eru aldraðir og sjúkir sem hafa verið að greiða þann tekjuafgang sem ríkisstjórnin hyggst skila með fjárlagafrv. og aldraðir og sjúkir hafa verið að greiða fjárlagahallann hjá þessari ríkisstjórn.

Það sem verið er að gera með frv. sem hv. þm. Ágúst Einarsson er 1. flm. að er að verið er að reyna að snúa til baka að litlu leyti í öllum þeim atlögum sem ríkisstjórnin hefur gert að öldruðum. Það er verið að leggja til þann sjálfsagða hlut að greiðslur til lífeyrisþega úr almannatryggingunum fylgi launaþróun í landinu eins og hún hefur gert þangað til ríkisstjórnin tók við eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir minntist á.

Auðvitað er ekki boðlegt að aldraðir skuli þurfa að búa við það óöryggi og þá vanlíðan sem því fylgir að vita aldrei hver kjör þeirra eru frá mánuði til mánaðar en þannig hefur það verið í tíð ríkisstjórnarinnar. Það er rétt sem kom fram áðan að skerðingar á lífeyrisþega voru miklar hjá síðustu ríkisstjórn. En það hefur ekki skánað í tíð þessarar ríkisstjórnar þó svo hér ríki mun betra efnahagsástand. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til þess að skila til þessa fólks aftur því sem af því var tekið í tíð síðustu ríkisstjórnar. Nei, hún hefur aukið álögurnar. Kannski væri full ástæða til þess fyrst við erum að ræða þessi mál að minna aðeins á hvað ríkisstjórnin hefur verið að gera og það sem snýr að þessum hópi.

[18:00]

Þessi hópur býr við meiri jaðarskatta en nokkur annar hópur í samfélaginu. Jaðarskattanefnd var sett á laggirnar til að reyna að taka á jaðarsköttunum í samfélaginu. Þar fengu aldraðir ekki að koma að og það eina sem kom út úr því var að tekin voru hlunnindi af ákveðnum hópi lífeyrisþega eins og þau að fá afnotagjöld af útvarpi og sjónvarpi niðurfelld og fastagjaldið af símanum sem kemur til framkvæmda nú í vetur. Það var gert svo óhönduglega að mismunun var aukin milli lífeyrisþega. Það var verið að mismuna fólki eftir því hvort það var í sambúð eða bjó eitt. Þannig tókst það nú til. Þjónustugjöldin í heilbrigðiskerfinu hafa aukist á þennan hátt. Komið var á tvísköttun á hluta lífeyrisþega á kjörtímabilinu sem snýr að lífeyrisgreiðslunum. Greiðslur til aldraðra og öryrkja voru skertar gagnvart fjármagnstekjum áður en fjármagnstekjuskatti var komið á hjá öðrum.

Tekjutenging lífeyris var aukin á aldraða. Grunnlífeyririnn var skertur um 30% í stað 25% gagnvart öðrum tekjum í tíð ríkisstjórnarinnar. Nú þurfa aldraðir að greiða fullt gjald fyrir læknisþjónustu, heilsugæslu, sérfræðiþjónustu og rannsóknir til 70 ára í staðinn fyrir 67 ára nema í undantekningartilvikum. Hámarksgreiðsla þeirra hækkaði úr 3.000 kr. í 12.000 kr. áður en þeir fá afsláttarkort. Þetta var gert í tíð ríkisstjórnarinnar. Lágmarksverð fyrir lyf var hækkað. Endurgreiðslur vegna mikils kostnaðar voru bæði þrengdar og gerðar flóknari. Eiginlega má segja að með þeim reglum sé alls ekki tekið þátt í lyfjakostnaði margra lífeyrisþega af velferðarkerfinu lengur. Það er mjög alvarlegt, sérstaklega hjá þeim sem þurfa mikið af dýrum lyfjum og eru aðeins með almannatryggingagreiðslurnar eða mjög lítið úr lífeyrissjóði. Þetta fólk býr við mjög þröngan kost. Til mín hefur komið fólk sem hefur sagt mér að það hafi þurft að fá lánað í apótekinu fyrir lyfjunum og jafnvel orðið að hætta að taka lyfin og þá hefur það lagst í rúmið vegna þess að það hefur ekki getað verið án lyfjanna. Það er fjári hart í velferðarsamfélagi og það í góðæri.

Ástæða væri að nefna ýmislegt fleira sem ríkisstjórnin hefur gert á hluta þessa hóps. Uppbótin vegna lyfja og umönnunar var tekjutengd. Þegar það var gert í upphafi kjörtímabilsins misstu yfir 2.000 lífeyrisþegar uppbótina eða fengu hana skerta og við það töpuðu þeir ákveðnum hlunnindum sem var veruleg kjaraskerðing fyrir þessa hópa. Ég minnists á annað sem hefur gerst í tíð ríkisstjórnarinnar ef menn skyldu vera búnir að gleyma því. Gerð var alvarleg atlaga að hreyfihömluðum, styrkjum til bifreiðakaupa var fækkað úr 600 í 335 á ári þrátt fyrir að alltaf hafi mun fleiri sótt um styrkina en fengu á hverju einasta ári.

Enn var haldið áfram eftir þessar fyrstu skerðingar. Í vetur voru lágmarksgreiðslur fyrir þau lyf sem Tryggingastofnun greiðir að hluta hækkaðar. Sama gilti fyrir aldraða, þeir þurftu einnig að greiða hærri lágmarksgjöld fyrir hlutfallsgreiðslulyf sem ég nefndi hér. Vissulega er verið að spara í útgjöldum ríkisins á lyfjakostnaði og það er sjálfsagt þörf á því en á að taka það þarna? Er sanngjarnt að taka það hjá þessu fólki sem vissulega er búið að borga sinn hlut í velferðarkerfinu með sköttum sínum alla ævina en þarf núna á velferðarkerfinu að halda?

Það er rétt sem kom fram áðan að það hefur verið skorið niður í tannlækningum. Það er meira að segja verið að lengja frestinn á því að fólk geti fengið sér gervitennur sem á því þarf að halda. Víða er reynt að seilast í peninginn hjá þessu fólki. Einnig má nefna það sem kom reyndar fram í máli manna hér á undan að það var verið að tala um að lífeyrisþegar gætu ekki leyft sér mikið. Það er alveg rétt. Það eru mjög margir lífeyrisþegar sem leyfa sér ekki neitt. Þeir sem eru með almannatryggingabæturnar nánast einar til framfærslu leyfa sér ekki neitt. Þetta fólk getur ekki einu sinni núna frá 1. sept. leyft sér að fara í sjúkraþjálfun þótt það þurfi á henni að halda vegna þess að nú þarf það að fara að borga fyrir sjúkraþjálfunina líka. Ekki bara sjúkraþjálfunina því ef það þarf að vera í iðjuþjálfun þarf það líka að greiða fyrir hana. Einnig þarf fólk sem hefur orðið svo óheppið að missa heilsuna og tapa máli, sem gerist ef fólk fær ýmsa hjartasjúkdóma, að borga fyrir talþjálfun. Þetta fólk hefur ekki efni á að veita sér þessa heilbrigðisþjónustu.

Já, víða er seilst í vasa þessa fólks. Það er rétt sem kom fram áðan að aldraðir og lífeyrisþegar geta lent í miklum erfiðleikum ef þeir missa heilsuna tímabundið. Ef þeir fara inn á sjúkrahús í fjóra mánuði á tveimur árum eru lífeyrisgreiðslurnar teknar af þeim og þeir fá vasapeninga, 11.000 kr. á mánuði. Þetta fólk á íbúðir eins og kom fram hjá einum hv. þm. Framsfl. hér í salnum. Það þarf auðvitað að borga af þeim, það þarf að borga rafmagn, hita, fasteignagjöld o.s.frv. þótt menn liggi á sjúkrahúsi. Það eru mjög erfiðir tímar hjá þeim sem missa heilsuna og þurfa að fara inn á sjúkrahús.

Mig langar til að minnast á annað í þessu sambandi vegna þessarar miklu tekjutengingar sem er á lífeyrinum. Það er alveg rétt að kerfið er mjög vinnuletjandi. Fólk fer ekki út á vinnumarkaðinn þótt því bjóðist það, þó svo það sé viðurkennt í þeim löndum sem við berum okkur saman við að menn telja æskilegt að fólk haldi áfram atvinnuþátttöku eins lengi og það getur. Ég minni á erindi sem haldið var á ráðstefnu um lífeyrismál sem aldraðir og öldrunarráð hélt á dögunum. Þar lagði erlendur fyrirlesari mikla áherslu á að mikilvægt væri að aldraðir gætu haft sveigjanlegan vinnutíma og gætu haldið áfram að vinna á meðan þeir vildu og hefðu þrek til. Það er nánast ógjörningur fyrir þá sem þurfa að treysta á almannatryggingakerfið. Eins og fram hefur komið koma þeir verr út úr því í sumum tilvikum ef þeir fara út á vinnumarkaðinn. Það er niðurlægjandi og óþolandi fyrir lífeyrisþega að þurfa að vera háðir geðþóttaákvörðunum ríkisstjórnar á hverjum tíma. Það er nákvæmlega það sem menn eru eftir að skilaboðin komu með fjárlagafrv. að aftenging greiðslna almannatrygginga við launaþróun í landinu eigi að vera varanleg. Þá eru þessir hópar algjörlega háðir duttlungum þeirrar ríkisstjórnar sem er við völd. Það á alls ekki að eiga sér stað. Auðvitað eiga lífeyrisþegar að koma að þegar ákvarðað er um laun þeirra og greiðslur alveg eins og fólk kemur að kjarasamningum.

Ég vona að það frv. sem er til umræðu hljóti ekki sömu örlög og sambærilegt frv. sem lagt var fram í vor en þá reyndu fulltrúar stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn. að sporna við þeirri gjörð að aftengja almannatryggingagreiðslurnar og lögðu fram sambærilegt frv. og það var fellt af meiri hluta ríkisstjórnarinnar í þinginu, stjórnarþingmönnum. Ég minni á að eitt af helstu baráttumálum aldraðra er að fá viðurkenningu á því að greiðslurnar úr almannatryggingakerfinu fylgi launum.

Það getur vel verið að það sé rétt að þetta ætti kannski að fylgja einhverri annarri þróun í efnahagsmálum, ég treysti mér ekki til að dæma um það, en full ástæða er til að skoða það eins og hv. þm. Ágúst Einarsson nefndi í framsögu sinni með þessu frv., menn geta skoðað það. En vissulega er full ástæða til þess að snúa vörn í sókn. Það er ekki boðlegt að láta lífeyrisþegana endalaust greiða fjárlagahallann. Ég minni á vegna þess að við erum að ræða þessi mál að í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskólans gerði síðasta vetur kom fram að lífeyrisþegar eru 20% þeirra sem lifa undir fátæktarmörkum. Það er því full ástæða til að huga að því hvernig þessum málum er komið. Vegna umræðu um þá nefnd sem er starfandi og er að fjalla um breytingar á almannatryggingunum verður að segjast eins og er að ekki er nokkur áhugi hjá ríkisstjórninni að breyta nokkrum sköpuðum hlut nema í skerðingarátt þegar almannatryggingarnar eru annars vegar. Eins og kom fram fyrr í umræðunni hefur nefndin ekki verið kölluð saman í rúma níu mánuði. Ég held að það sé lýsandi dæmi um það hver áhugi er á því að gera einhverjar breytingar til bóta. Samt getur hæstv. fjmrh., þegar hann er hér í fjárlagaumræðunni, verið að kalla eftir tillögum einstakra þingmanna um hvernig beri að haga uppbyggingu almannatryggingakerfisins. Það er bara eins og hver önnur hræsni þegar menn hafa ekki nokkurn áhuga á því í ríkisstjórninni með stóra og mikla nefnd í gangi til að vinna að þessum málum sem er aldrei kölluð saman. Ég hefði talið ástæðu til að menn færu nú að huga að því að gera eitthvað í þessum málum. Mig langar til að fagna því hvað samtök aldraðra, eldri borgara, og sérstaklega Aðgerðahópurinn hefur verið vaskur í framgöngu sinni í baráttumálum fyrir aldraða og vissulega náð eyrum mun fleiri en áður var. Ég trúi ekki öðru en að menn bindist samtökum um að snúa vörn í sókn fyrir hönd þessara hópa og leiðrétti þá kjaraskerðingu sem þeir hafa þurft að þola og leyfi einhverjum hluta af þessu margumtalaða góðæri að koma í hlut þeirra.