Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 18:13:49 (477)

1997-10-14 18:13:49# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[18:13]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil segja örfá orð við umræðuna. Það hvarflar ekki að mér, herra forseti, að á bak við flutning frv. búi annað en góður vilji flm. Ég efast ekkert um það. Hins vegar tek ég undir með hæstv. fjmrh. að það er að verða siður í málum að væna menn um hina verstu hluti. Ég kann illa við þann málflutning. (Gripið fram í: Það hefur enginn vænt þig um neitt.) Í pólitík eiga menn ekki að hafa það að leik sínum að búa til óvini. Ég harma það einnig að það skuli líka gerast í baráttuhópi aldraðra að þeir búi sér til óvini. Jafnvel við sem höfum í gegnum tíðina staðið með öldruðum, sem ég hygg reyndar að flestir þingmenn geri, þurfum að búa við það að vera auglýstir í blöðum sem óvinir þeirra. Þetta harma ég við umræðuna og vona að þetta breytist.

[18:15]

Sannleikurinn er nú sá að við þurfum á mörgum sviðum að ná sáttum í þjóðfélaginu á milli hópanna. Það er líka sorglegt að hlusta á jafnaðarmenn, sem voru í Alþfl. á mestu skerðingartímum hvað elli- og örorkulífeyrisþega varðar eins og hv. þm. Ágúst Einarsson, tala eins og hann gerði. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir rifjaði áðan upp að hún minntist þess að einhverjir aðrir hefðu skert. Ég ætla ekki að verja það en ég man eftir fundi 23. jan. 1992 þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, þá heilbrrh., varð fimmtugur. Sýnt var frá þessu í sjónvarpinu núna á dögunum, það varð eitthvert kossaflens í salnum, þá var rætt um skerðingu Alþfl. gagnvart öldruðum og ellilífeyrisþegum. Ég harma að menn láti eins og flokkur þeirra hafi aldrei komið að þessum málum.

Hér hefur hæstv. fjmrh. rakið að sem betur fer hafa núv. ríkisstjórnarflokkar hækkað til bótaþega meira en launahækkunin varð á almennum vinnumarkaði. Er það í mínum huga fagnaðarefni. Lög mega ekki hefta að það sé hægt.

Ríkisstjórnarflokkar sem fara með málefnin í landinu hafa barist fyrir batnandi ástandi í þjóðfélaginu og náð árangri í þeim efnum, hallalausum fjárlögum, og mikilli fjárfestingu og uppgangi á mörgum sviðum. Þetta gefur svigrúm til þess að bæta kjör þeirra sem verst eru settir. Það er auðvitað það (Gripið fram í: Það sem verður að gera.) sem verður að gera og er verið að gera, hv. þm. Ég er sannfærður um að stjórnarflokkarnir munu fara vel yfir þá tíu liði sem aldraðir afhentu á Austurvelli. Ég get tekið undir að ýmislegt þarf að laga. Aldraðir búa við jaðarskatta. Alveg eins og á vinnumarkaðnum er erfitt fyrir einstaklinginn að komast af í þjóðfélaginu. Ég get tekið undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni að kjör aldraðra eins og annarra í þjóðfélaginu eru misjöfn. Þeir eru ekki einslitur hópur. Ég er sannfærður um að við eigum að hafa það verkefni að skilgreina samhjálpina með þeim hætti að hún komi til þeirra sem þurfa á henni að halda. Sem betur fer eru margir efnamenn í hópi aldraðra. Ég hygg að sé grannt skoðað hverjir eiga peningana í landinu þá sé það stór hluti þeirra sem eru yfir 60 ára og eldri. En menn mega heldur ekki alhæfa í því eins og ég hef sagt áður, í hópi þeirra eru margir fátækir sem þurfa á hjálp að halda. (Gripið fram í.) Þeir eru sjálfsagt, hv. þm., víða um land. Ég segi fyrir mig þegar ég minnist á málefni aldraðra, þó mér hafi jafnvel verið stillt upp í óvinahóp þeirra, að fyrstu þingmál mín á þingi sneru að sveigjanlegum starfslokum sem ég hef barist fyrir, að menn gætu jafnvel hætt fyrr og endað síðar að vinna, dregið saman og unnið jafnvel fram yfir sjötugt. Þannig var sú hugsun. Þannig mundi ég vilja sjá þjóðfélagið. Eins voru það lífeyrissjóðamál sem ég tók upp.

Nú er sem betur fer enginn vafi að lífeyrissjóðirnir hafa bætt stöðu sína á síðustu árum og standa öðruvísi en áður var. Þar eru í dag meiri peningar en í öllu bankakerfinu. Ég býst því við að sú stund sé að nálgast að þeir sem komast á ellilífeyri og fá úr lífeyrissjóðum muni í framtíðinni fá þar hærri bætur. En ég geri mér grein fyrir því að það er kynslóð sem má segja að sé orðin fullorðin sem fær tiltölulega lítið úr lífeyrissjóðum og þarna verður að hugsa vel um af hálfu stjórnvalda.

Ég ætla ekki að segja mikið um þetta frv. Ég trúi því að ríkisstjórnin muni fylgja þeirri stefnu eftir sem hún hefur markað, að farið verði yfir þá liði sem aldraðir hafa sett fram í kröfugerð sinni sem er kannski ekki kröfugerð heldur ábendingar. Ég mun vinna að því í mínum flokki að rækilega verði farið yfir þær tillögur og tekið tillit til þeirra sjónarmiða.

Í lokin vara ég við því að menn tali um aldraða eins og þeir eigi allir að fá bætur, við verðum að skilgreina samhjálpina, að hún komi til þeirra sem á henni þurfa að halda. Ég vona að frv. fái þinglega meðferð í nefndum þingsins. Ég trúi því að það þurfi ekki að ná fram að ganga því að góður vilji ríkisstjórnarflokkanna gengur lengra en frv.