Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 18:25:26 (479)

1997-10-14 18:25:26# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[18:25]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. ræddi um dýpstu kreppu. Það er auðvitað rétt hjá honum að á síðasta kjörtímabili var djúp kreppa. Nú er enginn vafi að þjóðfélagið er að rísa til sóknar. Því er spáð að kaupmáttur launa muni vaxa um 25% fram til aldamóta. Ég er sannfærður um og trúi því að aldraðir muni fá sama hlut ef ekki betri. Það hefur sýnt sig, einnig nú, að þó þessi lög hafi verið aftengd þá gerðist það nú --- menn geta kallað með töngum eða hverju sem er, baráttu aldraðra, hv. þm. Ágúst Einarsson, vildi eigna stjórnarandstöðunni það --- að aldraðir hafa fengið meiri kjarabætur en gerðist í kjarasamningunum. Ég vona að sá góði vilji sem býr í flokki mínum leiði til þess að við getum á næstu árum bætt kjör aldraðra og ekki síst tekið á því vandamáli sem býr bæði meðal aldraðra og annarra þjóðfélagsþegna að fátæktin á Íslandi hverfi.