Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 18:33:17 (483)

1997-10-14 18:33:17# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[18:33]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað má snúa út úr öllum ræðum og rangfæra þær í ræðustól eins og hv. þm. leyfir sér að gera í umræðunni. Þegar ég tala um skerðingar og ,,hjálp að halda`` skipti ég auðvitað fólki í tvennt. Ég vil ekki að þeir sem hafa það virkilega gott, eiga mikla peninga og hafa mikil eftirlaun úr lífeyrissjóðum og annars staðar frá, fái ýmislegt frá samhjálpinni. Samhjálpina þarf að skilgreina með þeim hætti að hún fari til þeirra sem þurfa á henni að halda en ekki hinna. Vill hv. þm. svara því hvort hún vill láta það ganga yfir línuna? Vill hún engar skerðingar? Á að láta þann sem hefur 400--500 þús. í eftirlaun fá peninga til þess að láta laga í sér tennurnar o.s.frv.? Á ríkið að borga það? Þurfa ekki að vera skerðingar í þessu dæmi? Þetta er útúrsnúningur sem ég hélt að henti þennan virðulega þingmann ekki.

Ég er sammála hv. þm. að auðvitað vil ég hvergi sjá fátækt. Ég er af fátæku fólki kominn og ég hef séð fólk berjast fyrir lífi sínu þannig að ekki þarf að tala með þessum hroka við mig. Ég þekki alþýðuna á Íslandi og kjör hennar. En hv. þm. skal skilgreina hvert hún vill fara. Mér heyrist að hún vilji nota peninga ríkissjóðs með þeim hætti að þeir gangi á línuna. Það er enginn vafi í mínum huga að sem betur fer eru margir efnaðir meðal aldraðra, hafa farið vel með og búið í haginn. Við skulum huga að öldruðum en við skulum heldur ekki gleyma því að við eigum unga kynslóð sem skuldar mikið og af henni hef ég miklar áhyggjur, kannski enn þá meiri áhyggjur af hinni ungu skuldugu kynslóð sem á börnin og er að ala þau upp en hinum öldruðu, ég skal vel játa það. Því þeir hafa staðið flestir þannig, sem betur fer, að þeir komast þokkalega af en ég hef skilgreint það vel í ræðu minni að þar er misskipt auðæfunum og ber að horfa til þeirra, að skerða ekki hjá þeim sem fátækastir eru.