Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 18:36:07 (484)

1997-10-14 18:36:07# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[18:36]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég nefndi áðan að í landinu væru um 27 þúsund eldri borgarar. Af þessum 27 þúsund eldri borgurum eru 20 þúsund með einhverja tekjutryggingu. Þetta segir okkur býsna mikið um stöðu eldri borgara og hve varasamt getur verið að tala um meðaltöl í þessu sambandi. Eins og hefur komið fram er staða þeirra mjög slæm og þeir eru margir sem hafa allt sitt frá almannatryggingakerfinu. Og framlagið hefur verið rýrt á undanförnum árum. Við þurfum að hafa í huga að við erum að tala um fólk sem hefur ekki átt kost á að vera mikið í lífeyrissjóðum og hefur ekki byggt upp miklar lífeyrissjóðseignir. Margt af þessu fólki er kvenfólk sem var ekki í lífeyrissjóðsumhverfi þegar það var að vinna. Þetta fólk hefur ekki úr miklu að spila núna.

Við sjáum að ríkisstjórnin sá ástæðu til að leggja sérstakan fjármagnstekjuskatt á þetta fólk, jaðarskattarnir eru það háir, jaðarskattar atvinnutekna lífeyrisþega eru u.þ.b. 80%. Ef þeim dettur í hug að vilja fara út á vinnumarkaðinn, tökum einstakling sem hefði 50 þús. kr. í tekjur á mánuði, í hlutastarfi, mundi örorkumat lækka úr 75 í 65% og þá tapar þessi einstaklingur á því að fara út á vinnumarkaðinn. Annað dæmi er um sambúð eða hjónaband þar sem árstekjur maka væru 1 milljón og lífeyrisþegi tekjulaus þá væri í sambúð eða hjónabandi um að ræða 113 þús. kr. á mánuði með örorkulífeyri, tekjutryggingu og tekjur. Ef fólkið skilur þá væri upphæðin 144 þús. kr. eða 30 þús. kr. hærri greiðsla til þeirra.

Herra forseti. Svona dæmi segja okkur að það er orðið meira en tímabært að taka þær ábendingar sem hafa komið fram hjá eldri borgurum alvarlega. Ekki segja eins og hv. þm. Guðni Ágústsson sagði áðan að hann treysti ríkisstjórninni raunverulega til að framfylgja því sem sagt er í þessu frv. og meiru til. Eldri borgarar, stjórnarandstaðan, hafa ekki nokkra einustu ástæðu til að treysta ríkisstjórninni til að rétta hag eldri borgara. Mér finnst það slæmt og ég veit að fjölmargir í stjórnarliðinu bera hag eldri borgara fyrir brjósti. Margir í stjórnarliðinu skammast sín fyrir þá stöðu sem er komin upp hjá ríkisstjórninni því hún á ekki að þurfa að vera. Það er ástæðulaust, herra forseti, að ganga með þessum hætti á rétt þessa fólks. Engin ástæða er til þess. Ríkisstjórnin hefur brotið á þeim sem síst skyldi, bæði fjárhagslega en einnig með framkomu sinni, og sárnar mönnum kannski mest framkoman, það er lítilsvirðingin sem er sýnd í öllu málinu. Megintekjur aldraðra eru úr almannatryggingakerfinu, menn geta alveg skoðað tölur um það, sumir hafa tekjur annars staðar frá aðrir úr lífeyrissjóðum en megintekjurnar og eftir því sem fólk verður eldra þeim mun meiri hluti kemur úr almannatryggingum. Þetta er staðreynd í málinu.

Við höfum, herra forseti, ekki borið gæfu til þess að sannfæra stjórnarliða um skynsemi málsins sem við leggjum fram. Þvert á móti höfum við fengið í umræðunni frá hæstv. fjmrh. að nú skal þessi aftenging gerð varanleg og eldri borgarar eiga að vera háðir geðþóttaákvörðunum stjórnvalda hverju sinni. Það er alveg sama hvernig menn snúa því, þegar búið er að taka þessa tengingu af þá er það ákvörðun hverju sinni alveg eins og við höfum séð að það hefur þurft að toga þessar bætur núna undanfarin missiri út úr hæstv. ríkisstjórn með valdi. Það var ekki með öðru en valdi og fyrst og fremst vegna framgöngu eldri borgara og e.t.v. höfum við í stjórnarandstöðunni átt einhvern hlut að máli, þó held ég minna en eldri borgarar sjálfir.

Herra forseti. Reiði hefur gripið um sig í þjóðfélaginu. Við eigum að gæta okkur á því að skapa ekki þær aðstæður í þjóðfélagi sem við viljum hafa samhjálp í að fólk telji sig hafa ástæðu til að vera reitt og það með réttu. Það er að mínu mati gjörsamlega óviðunandi að við séum að reita fullorðið fólk til reiði. Ég hef einhvern tímann sagt að virðing þjóðfélags endurspeglast e.t.v. best í því hvernig það kemur fram við eldri þegna sína. Mér hefur stundum fundist að ríkisstjórnin setji þann verðmiða á þetta þjóðfélag að það sé í reynd ekki mikils virði.

Herra forseti. Við í stjórnarandstöðunni munum halda áfram að berjast fyrir þessu máli, berjast fyrir þeirri stefnu sem við höfum verið að lýsa í ræðustól og berjast fyrir því að eldri borgurum sé sýnd virðing.