Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 18:47:24 (487)

1997-10-14 18:47:24# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[18:47]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hér áðan var rifjað upp af hv. þm. samstarf Sjálfstfl. og Alþfl. í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar frá 1991. Það má kannski segja að þá varð mikil endurnýjun í þingflokki sjálfstæðismanna. Mig minnir að það hafi verið upp undir helmingur þingmanna flestra flokka sem þá settust á þing í fyrsta sinn. Þáv. heilbrrh., Sighvatur Björgvinsson, hafði forgöngu um það hvernig á málum skyldi haldið í Tryggingastofnun ríkisins. Ég viðurkenni það alveg að ég var nýgræðingur þá nýsestur á þing. Ég fór kannski villur vegar í því að hugsa sem svo að þarna væri maður sem hefði nú nokkuð mikið vit fyrir okkur hafandi setið á þingi í fjölmörg ár. Sú tekjutenging sem þá var hleypt af stokkunum, ef svo mætti segja, er enn við lýði og kemur þá úr þeim herbúðum sem síðasti ræðumaður nú hefur hreiðrað um sig í. Það væri gaman að því þegar frá líður í vetur að heyra í fyrrv. heilbrrh. hvað honum hafi gengið til með þeirri tekjutengingu sem hann kom þá á.

Mér þykir vænt um að þau orð sem hv. þm. viðhafði áðan um ágæti mitt. Það er annar kapítuli. Hitt er annað mál að Sjálfstfl. hefur ekki lagt af stefnu mannúðar og mildi. Hún er enn ríkjandi. Eins og kom fram hér hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni þá munu ríkisstjórnarflokkarnir fara yfir þetta mál og þeir þingmenn sem fylgja þessari ríkisstjórn munu skoða þau mál sem snúa sérstaklega að málefnum aldraðra.