Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 18:49:41 (488)

1997-10-14 18:49:41# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[18:49]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ekki efast ég neitt um þann vilja hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar eða hv. þm. Guðna Ágústssonar að ætla að skoða mál af velvild og yfirvegun. Þeir munu vafalítið gera það. Ég bendi hins vegar á að búið er að taka ákarðanirnar fyrir þá. Þeir geta skoðað allt eins og þeir vilja en það er búið að leggja fram fjárlagafrv. Það er búið að boða stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar þetta atriði sem við erum að ræða. Þessi aftenging skal gerð varanleg. Foringjarnir hafa talað, ekki fótgönguliðarnir, þó þeir séu nú mætir. Foringjarnir hafa talað, hæstv. forsrh. í sinni stefnuræðu og hæstv. fjmrh. í sinni fjárlagaræðu. Þeir hafa kveðið upp úr um þetta og einhverjir framsóknarmenn hafa líka fylgt með í þeirri umræðu. Þannig að stefna mannúðar og mildi er nú horfin, herra forseti, hvað þessi mál áhrærir.

Hv. þm. gat um verk fyrrum heilbrrh., Sighvats Björgvinssonar. Hann verður náttúrlega að svara fyrir þau sjálfur og er maður til þess. Ég minni hins vegar á að þar voru menn í erfiðum málum sem tengdust niðursveiflu í efnahagslífinu. Það má vel vera að tekið hafi verið of harkalega á ýmsum þáttum en ég bendi þó á það hvernig sú ríkisstjórn komst út úr þeim efnahagsþrengingum sem hefur nú reyndar skapað grundvöllinn fyrir þeirri hagsveiflu sem nú er. Menn skulu ekki vanmeta það. Hins vegar er það stefna okkar að hverfa frá þessari tekjutengingu. Hún er komin út í þvælu og öfgar og var það kannski fyrr á tímum. Menn eru alltaf meiri við það að sjá að sér gagnvart þessum þáttum og tala um þá með skynsemi. Mér finnst skemmtilegra að horfa fram á við í pólitíkinni en aftur á bak. Þetta er eitt af því sem við verðum að laga í þessu kerfi eins og margsinnis hefur verið rakið í umræðunni. Með þessari miklu tekjutengingu er verið að refsa fólki sem vill vinna eða fær einhverjar aukagreiðslur og sýna því ósanngirni. Þetta skulum við laga.