Umboðsmaður barna

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 19:31:42 (491)

1997-10-14 19:31:42# 122. lþ. 8.15 fundur 59. mál: #A umboðsmaður barna# (ársskýrsla) frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[19:31]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Sem höfundur þess frv. sem síðar varð að lögum um embætti umboðsmanns barna vil ég standa hér á fætur einungis til þess að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þetta frv. Ég tek undir það með hv. 15. þm. Reykv., Össuri Skarphéðinssyni, að ég held að það sé ekki nema til góðs ef það verður til að lyfta embættinu að það verði lögbundið að skýrslan skuli rædd hér á hverju þingi.

Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt að málefnum barna hefur ekki verið sinnt sem skyldi í okkar samfélagi og það gleður mig að heyra að margra ára barátta sem það kostaði að fá þetta embætti samþykkt og fá frv. lögfest hefur orðið til þess að menn eygja framför eftir að þetta embætti varð til.

Ég held að við höfum verið afar lánsöm að fá frú Þórhildi Líndal sem umboðsmann barna. Hún hefur mótað embættið ákaflega skynsamlega og ég held að hún vinni sitt starf eins og best má verða.

Ég ætla ekki að ræða efni skýrslunnar né almennt hlutverk umboðsmannsins, tel ekki ástæðu til þess nú. Ég vil einungis þakka hv. þm. Kristjönu Bergsdóttur og flokksbræðrum hennar fyrir að sýna þessa umhyggju fyrir lögunum um embætti umboðsmanns barna og tel að þessi litla breyting sem er efnislega mjög stór geti einungis orðið til góðs. Þar sem ég á sæti í hv. allshn. sem ég vænti þess að þingmaðurinn vilji að fái frv. til meðferðar, þar var frv. til meðferðar þegar það varð að lögum, þá vil ég heita henni að ég mun að sjálfsögðu styðja eindregið að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi.