Umboðsmaður barna

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 19:33:54 (492)

1997-10-14 19:33:54# 122. lþ. 8.15 fundur 59. mál: #A umboðsmaður barna# (ársskýrsla) frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[19:33]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessa frv. hefur gert ítarlega grein fyrir málinu og ég ætla ekki að bæta þar neinu við. Ég skrifa upp á þetta mál, er einn af flm., en 1. flm. hefur haft forustu um að hrinda þessu frv. hér fram. Ég vil aðeins lýsa því í nokkrum orðum að ég tel þetta mál afar mikilvægt. Það var, eins og síðasti ræðumaður tók réttilega fram, nokkur aðdragandi að því að þetta embætti væri stofnað. Það voru umræður um það á hv. Alþingi í nokkur ár og það er gott til þess að vita að farsællega hefur tekist til og þetta embætti umboðsmanns barna er nú óðum að festa sig í sessi. Við flm. þessa frv. teljum að lögbinding á umræðu um skýrslu umboðsmanns á Alþingi festi þetta embætti enn frekar í sessi og það verði til þess að málefni barna verði fastur liður á hv. Alþingi. Það hefur sýnt sig að fyrir þetta embætti er mikil þörf. Það er nú einu sinni þannig að vandamál dagsins varðandi börn eru mikil og vaxandi. Það má vel vera að vandamál gærdagsins hafi einnig verið mikil þó að þau hafi ekki komið upp á yfirborðið. En það er því miður svo að grimmd og einangrun einstaklinga, jafnt barna sem fullorðinna sem lenda með einhverjum hætti utanveltu í lífinu, fer vaxandi. Það má endalaust tala um ástæður þessa. Ég ætla ekki að lengja mál mitt að þessu sinni með því að nefna þær. Það er oft talað um ofbeldi í sjónvarpi og kvikmyndum sem ástæðu. Ég held að eitthvað geti verið til í því en þó ætla ég ekki að fullyrða að það sé eina ástæðan fyrir þessari þróun sem er mjög ískyggileg. Ég er sannfærður um að hinn mikli fjöldi af sundruðum fjölskyldum í landinu er einnig ástæða fyrir vandamálum sem upp koma.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég vildi einungis með nokkrum orðum fylgja þessu máli úr hlaði með hv. 1. flm. sem flutti um það ítarlega og góða ræðu hér á undan.