Umboðsmaður barna

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 19:42:00 (494)

1997-10-14 19:42:00# 122. lþ. 8.15 fundur 59. mál: #A umboðsmaður barna# (ársskýrsla) frv., Flm. KB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[19:42]

Flm. (Kristjana Bergsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í lok þessarar umræðu til þess að þakka þeim sem hér hafa talað og lýst yfir stuðningi við þetta frv. Í skýrslu umboðsmanns barna eru mjög mörg atriði sem við þingmenn getum hugað að í vetur. Ég tel það mjög mikilvægt sem kom fram hjá ræðumönnum að mikil nauðsyn er á því að börn öðlist sína talsmenn hér innan veggja Alþingis. Og vegna þess sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan um þingpalla, þá gæti sá dagur runnið upp, ef skýrslan verður í upphafi þings ár hvert til umræðu, að á verði þingpöllum fólk, börn eða aðrir, sem kemur og fylgist með umræðum um málefni barna og unglinga. Ég vona að svo megi verða.

Að lokum legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.