Fæðingarorlof feðra

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 13:51:26 (505)

1997-10-15 13:51:26# 122. lþ. 9.2 fundur 75. mál: #A fæðingarorlof feðra# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[13:51]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda og öllum þeim sem hafa tekið til máls því að ég held að allir séu sammála um að hér sé mjög mikilvægt mál á ferðinni. Og ég vil þakka þær undirtektir sem hafa komið fram við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem hefur verið lýst.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði um kostnaðinn. Ég hef reyndar svarað þeirri fyrirspurn fyrr, gerði það í umræðu um fjárlagafrv. Við gerum ráð fyrir því í rekstrarkostnaði stofnana ríkisins að til slíks geti komið. Verði hins vegar eins og ég sagði þá um einhvern farald að ræða hjá einstakri stofnun, þá verður auðvitað gripið til aðgerða til þess að bæta stofnuninni það upp. En það er ætlunin að menn tilkynni þetta með nokkrum fyrirvara.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur skal tekið fram að í ríkisstjórninni er nú til athugunar frv. um að veita feðrum sjálfstætt fæðingarorlof. Og hv. þm. spurði um kostnaðinn. Gróft reiknað má telja að kostnaðurinn sé í kringum 100 millj. og ef sá kostnaður á að greiðast í gegnum Tryggingastofnun ríkisins sem er sjálfsagt það sem liggur beinast við, þá er auðvitað eðlilegast að hann sé greiddur af tryggingagjaldinu og mundi þýða um 0,05% hækkun á því.

Ég vek hins vegar athygli á að það er munur á stöðu karla hjá ríkinu og karla á almennum vinnumarkaði af ástæðum sem ég hef þegar nefnt hér og nú. Og af því að minnst var á Sókn get ég sagt að ég hef þegar rætt við formann Sóknar og hún hefur lýst yfir ánægju sinni með það sem hér hefur komið fram um að þessi sjálfstæði réttur karla í starfi hjá ríkinu sé fyrir alla karlkyns ríkisstarfsmenn.