Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 15:16:46 (521)

1997-10-15 15:16:46# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:16]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að fyrirtæki fari á hausinn eða séu ekki til, þá vil ég benda á ferðamannaþjónustu. Þar hefur verið kvartað mjög mikið undan háu vöruverði, háu verði á matvörum t.d. vegna þess hve virðisaukaskattur er hár á Íslandi þannig að þeirra kröfur eru aðallega fólgnar í því að lækka virðisaukaskattinn til að búa sér til athafnarými til að fá hingað erlenda ferðamenn. Þeir koma bara hreinlega ekki. Sá atvinnurekstur er bara hreinlega ekki til vegna þess hvað virðisaukaskatturinn er hár þannig að þetta er eitt dæmi.

Svo er ég alveg sannfærður um að ef það tækist að innheimta þessa 11 milljarða sem talið er að séu skattsviknir --- ég er mjög mikið á móti skattsvikum, ég vil taka það fram --- þá er ég alveg sannfærður um það, burt séð frá því hvaða skoðun hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur, að einungis lítill hluti, sennilega helmingur, mundi innheimtast. Hitt mundi ekki innheimtast, það yrðu bara gjaldþrot. Það er því tómt mál að tala um að ætla sér að innheimta þennan skattundandrátt að fullu. Ég vil hafa skattkerfið þannig að skattsvik verði ekki stunduð, að skattarnir séu svo eðlilegir og léttir að þeir leiði menn og fyrirtæki ekki til skattsvika.

Varðandi vaxtabæturnar þá hef ég allt of oft upplifað að menn segja að skatturinn greiði af láninu. Þeir taka lán. Vextirnir skipta nánast engu máli á vissu tekjubili og eignabili vegna þess að skatturinn greiðir þá alla að fullu og þar af leiðandi geta menn keypt sér ríflegri íbúð en þeir hugsanlega mundu gera eða ætluðu að gera ef ekki kæmu til vaxtabætur. Ég er miklu hlynntari því að menn fái bara hreinlega greidda ákveðna upphæð í hverjum mánuði og ekki alltaf endalaust þessar niðurgreiðslur og bætur sem er mjög erfitt að henda reiður á.