Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 15:22:59 (524)

1997-10-15 15:22:59# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:22]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég hygg að fá mál hafi tekið jafnmikinn tíma og fengið jafnmikla umræðu úr þessum virðulega ræðustól eins og skattamál enda snerta þau hagsmuni allra landsmanna og kjör þeirra og verða eilíft deiluefni. Ég ætla ekki að lengja umræðuna og efnislega ekki að fara út í umræðuna, en tilefni þess að ég kveð mér hljóðs eru ummæli og minningarorð sem fallið hafa um svokallaða jaðarskattanefnd.

Ég hygg að landsmenn allir séu sammála um að hið svokallaða jaðarskattakerfi sé um margt mjög gallað. Það kom fram í pólitískum yfirlýsingum að ég held allra stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar, það kemur fram í stefnumótun ríkisstjórnarinnar, í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna og það er af þeim sökum sem svokölluð jaðarskattanefnd var skipuð.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram í máli hv. þingmanna um galla jaðarskattakerfisins, um að þeir séu óréttlátir, að jaðarskattaáhrif þeirra gæti m.a. í því að þeir ýti undir skattsvik, þeir ýti undir ójöfnuð og séu þjóðhagslega óhagkvæmir. Og það sem e.t.v. er alvarlegast er að þeir ýti undir lækkað siðferði þjóðarinnar. Þess vegna er tilefnið ærið að breyta jaðarsköttum, taka á hinum svonefndu áhrifum jaðarskatta.

Tilefni þess að ég vildi segja örfá orð í þessari umræðu eru ummæli um að jaðarskattanefnd hafi lokið störfum. Það má ljóst vera og hefur komið afskaplega skýrt fram í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að þetta er flókið mál, eitt rekur sig á annars horn og í sjálfu sér er erfitt að ná samstöðu um það sem allir geta sætt sig við. Hver hefur sína skoðun á því og snýst ekki einungis um tvö ólík pólitísk sjónarhorn.

Hins vegar er rétt að minna á að svokallaðri jaðarskattanefnd var einnig ætlað að fjalla um skattsvik sem tengjast auðvitað jaðarsköttum en eru líka mikið rædd úti í þjóðfélaginu og inni á Alþingi, enda skattsvik talin mikil og sýnt hefur verið fram á að þau eru mikil og í þeim felst óréttlæti, ójöfnuður og þar fram eftir götunum. Það kom mjög skýrt fram í starfi jaðarskattanefndar --- sá sem hér stendur var einhverra hluta vegna skipaður í þá nefnd --- að sjónarmið eru ólík og grun hef ég um að ekki sé einhugur endilega meðal atvinnurekenda, verkalýðshreyfingar, stjórnmálaflokka og þannig má áfram telja. En ég vil líta svo á að jaðarskattanefnd, blessuð sé minning hennar, hafi í rauninni rétt verið búin að velta við steinum, skoða ástandið og kortleggja landið en hafi ekki verið gefinn tími til þess að móta þær tillögur, það verkefni sem henni var ætlað að gera. Því veldur örugglega margt og m.a. hafði það áhrif á störf nefndarinnar að kjarasamningar á milli einkum ASÍ og VSÍ komu inn á starfstíma nefndarinnar og hluti af málefnum nefndarinnar fór inn á borð ríkisstjórnar og samtaka vinnumarkaðarins. Það varð örugglega til þess að tefja störf nefndarinnar um hríð. En hins vegar og það er tilefni þess að ég vildi kveðja mér hljóðs, var það ákvörðun formanns nefndarinnar að nefndin hefði lokið störfum. Það hefur komið fram hér m.a. hjá hæstv. fjmrh. En ég lít svo á að nefndin hafi ekki lokið störfum sínum. Tillögur voru ekki komnar, enda eru þær ekki í skýrslunni sem formaður nefndarinnar birti til hæstv. ríkisstjórnar. Þar af leiðandi má segja að nefndin sé enn svífandi í lausu lofti þó hún hafi hlotið hér blessunar- og kveðjuorð nokkurra hv. þm. og í blaðagreinum.

Ég taldi ástæðu til þess að þetta kæmi fram þar sem ég var einn nefndarmanna. Nefndin var ekki blásin af formlega. Hins vegar trúi ég því að sú nefnd sem hæstv. fjmrh. hefur boðað að verði skipuð geti nýtt þær upplýsingar sem dregnar voru fram í jaðarskattanefnd og ætti það starf þess vegna að geta gengið hraðar fyrir sig. Málið er jafnbrýnt, jaðarskattar eru umdeildir, skattsvik eru umdeild og á þessu þarf að taka og ég trúi að það muni verða gert.