Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:06:43 (537)

1997-10-16 11:06:43# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:06]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé afar eðlilegt að hér á hinu háa Alþingi sé árlega rætt um heilbrigðismálin, um stefnu og stöðu í þeim málaflokki. Vandamálin hér eru þau sömu og annars staðar á Vesturlöndum --- sívaxandi kostnaður hefur kallað á róttækar breytingar. Og það er ástæða til þess að líta á það að meðal OECD-þjóðanna hafa langflestar þeirra látið fara fram verulega úttekt og endurmat á heilbrigðismálum sínum. Menn ræða gjarnan um forvarnir annars vegar og hátæknilækningar hins vegar. Þetta er ekki val, þetta er ekki annaðhvort eða heldur bæði og. Ég minni á að núv. hæstv. heilbrrh. hefur lagt mikið kapp á að bæta forvarnir hér á landi og ég held að enginn geti tekið það nokkurn tímann af ráðherranum.

Við búum við nýja tækni, ný lyf á hverjum degi. Þetta kostar gífurlega fjármuni og vekja á móti siðferðilegar spurningar um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Við skulum hafa í huga nokkrar staðreyndir. Í fyrsta lagi, þrátt fyrir allt tal stjórnarandstöðu á hverjum tíma, þá er það svo að framlög ríkisins til heilbrigðismála hafa hækkað. Það sést t.d. frá árinu 1990, og það er alveg sama á hvaða vísitölu það er mælt, þetta má lesa í gögnum Ríkisendurskoðunar og sem hafa verið gefin út og hv. alþm. hafa undir höndum. Heildarútgjöld til heilbrigðismála eru há og eru sérstaklega há þegar tekið er tillit til þess að aldurssamsetning þjóðarinnar er önnur hér en annars staðar. Til viðbótar má benda á að hlutfall opinberra útgjalda af heildarútgjöldum til heilbrigðismála er líka mjög hátt hér á landi, þannig að kostnaður heimilanna er tiltölulega lítill þegar miðað er við það sem við sjáum víða annars staðar. Og það er athygli vert hér að okkur hefur gengið heldur hægar en nágrannaþjóðunum að fækka legurýmum á sjúkrahúsum og að beina starfseminni frekar að þeim háöldruðu.

Það sem er hins vegar nýtt í þessu máli núna og við þurfum að líta á í dag er að á undanförnum tveimur árum, og þá ekki síst á síðasta ári, hefur verið vandlega farið ofan í heilbrigðismálin af hinum hæfustu mönnum og niðurstaða hefur fengist t.d. varðandi starfsemi sjúkrahúsanna í Reykjavík sem eru dýrustu sjúkrahúsin. Þar hefur verið gerður samningur á milli heilbrrn., borgarstjórans í Reykjavík sem rekur Sjúkrahús Reykjavíkur og fjmrn. Samningurinn byggir á því að sjúkrahúsin fá, eins og Sjúkrahús Reykjavíkur, alla þá fjármuni sem sjúkrahúsið bað um samkvæmt eigin rekstraráætlunum á yfirstandandi ári en í staðinn mun sjúkrahúsið vinna að hagræðingu á næsta ári, þeirri hagræðingu sem gert var ráð fyrir að sjúkrahúsið ynni að á yfirstandandi ári og síðasta ári. Þetta eru nú staðreyndir í þessu máli.

Gífurleg breyting hefur orðið á heilbrigðisþjónustunni og hún hefur verið að batna frá ári til árs. Það eru nýtískuskurðaðgerðir, svæfingartækni er önnur, kögunaraðgerðir hafa komið í staðinn fyrir opnar aðgerðir og betri lyf. Fjöldi sjálfstætt starfandi sérfræðinga tvöfaldaðist á Íslandi á árunum 1980--1995 og aðgerðum hefur fjölgað utan sjúkrahúsa. Talið er að 50% skurðaðgerða fari fram á læknastofum úti í bæ þó að þær séu yfirleitt minni háttar, minni en þær sem eru framkvæmdar á spítölunum.

Auðvitað er stefnumörkun í þessum málaflokki sífelld. Við leysum það ekki í einu vetfangi, þetta er ekkert átaksverkefni. Við þurfum að hafa þar ýmislegt í huga. Við þurfum að ræða um rekstrarfyrirkomulag, eigum við að hafa samkeppni, samvinnu, sameiningu? Við þurfum að breyta almennum sjúkradeildum í meira mæli í hjúkrunarrými, við þurfum að leita nýrra úrræða og ódýrari fyrir gamla fólkið eða fyrir háaldraða. Við þurfum að endurskipuleggja fjárfestingar sem við eigum í þessum geira.

Hér hefur verið rætt talsvert um kjarasamninga og það er rétt að nokkrum þeirra er enn ekki lokið. Ég vil benda á varðandi læknana sérstaklega að kjarasamningar þeirra eru afskaplega flóknir og það þarf að taka tillit til þess í meira mæli en gert hefur verið að læknar starfi eingöngu á sjúkrahúsum. Það er flókið og erfitt, ekki síst þegar í samninganefnd lækna eru fulltrúar mjög mismunandi viðhorfa. Og varðandi samninginn við heilsugæslulækna og héraðslækna vil ég taka fram að á sínum tíma benti ég á að það kynni að vera skammgóður vermir því að þegar kjaranefndin kemst að niðurstöðu er ekki víst að hún muni hækka laun þessara lækna eins og þeir sjálfir búast við.

Síðan er spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur: Á að vekja upp gömlu sjúkrasamlagshugmyndina eins og sumar þjóðir hafa gert, mynda hlutverk kaupenda og seljenda? Á að samræma gjöld innan og utan sjúkrahúsa? Er eðlilegt að beina sjúklingum á dýrari brautir? Á að leyfa fólki að greiða fyrir þjónustuna í stærri stíl í stað þess að kaupa hana í öðrum löndum? Og hvernig á að vekja kostnaðarvitund þeirra sem veita og hinna sem njóta þessarar þjónustu? Þetta eru spurningar sem við verðum að svara.

Þetta er erfiður málaflokkur. Það vitum við öll. Við gætum sjálfsagt sett öll útgjöldum íslenska ríkisins til heilbrigðismála. Það er þess vegna erfitt að forgangsraða í þessum málaflokki. En að undanförnu hefur verið lögð mikil vinna í að kanna rækilega hver staða mála er hjá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og sjúkrahúsunum úti á landi og ég tel að sú vinna hafi skilað okkur upplýsingum sem hægt er að byggja á. Það er samt þannig að sífellt má deila um hvert peningarnir eiga að fara. Og það er áberandi í þessum málaflokki, kannski eðli málsins samkvæmt, að viðhorf þeirra sem vinna störfin, vinna við að þjóna sjúklingum, þeim sem koma inn í heilbrigðiskerfið, eru mjög sterk í þessu kerfi. Við höfum heyrt hundrað raddir um að allt sér hér að fara til fjandans. Við skulum taka mark á þessu, lesa þetta, það er sjálfsagt. En við skulum vara okkur á því að halda að það eina sé satt sem kemur fram í þessum plöggum eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson virtist álíta. Ég minnist þess t.d. þegar hv. þm. Margrét Frímannsdóttir lýsti því fyrir okkur fyrir síðustu kosningar hvernig staðið væri að því að brjóta niður tillögur stjórnvalda í þessum málaflokki með því að velja sparnaðaraðgerðir, og þá var hún að tala um sparnaðaraðgerðir í ráðherratíð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, með því að velja nýjar sparnaðaraðgerðir sem kæmu sér verst fyrir fólk til þess að brjóta niður samstöðu alþingismanna. Ég minnist þess þegar hv. þm. Margrét Frímannsdóttir lýsti þessu í kosningasjónvarpi fyrir síðustu kosningar. Þannig að það þarf ekki allt að vera satt og rétt sem kemur frá einstökum stéttum í þessu kerfi þó að ég vilji undirstrika það að starfsfólk í heilbrigðiskerfinu hér á landi er frábærlega gott starfsfólk og það hefur skilað sínu verki ákaflega vel.

Það er niðurstaða allra sem ræða þennan málaflokk, innlendra sem útlendra, að á Íslandi sé heilbrigðiskerfið gott. Það hefur farið batnandi á undanfarandi árum, þjónustan er að aukast eins og hæstv. heilbrrh. benti á en við skulum viðurkenna að breytingar eru nauðsynlegar. Þær eru nauðsynlegar af því að við verðum að nýta fjármagnið sem við höfum á milli handanna sem allra best til þess að þjóna sjúklingunum eins vel og kostur er á í okkar velferðarþjóðfélagi.