Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:14:36 (538)

1997-10-16 11:14:36# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Niðurskurðarfárið og upplausnarástandið í heilbrigðismálunum hefur hér verið gert að umtalsefni. Þegar Sjálfstfl. á í hlut, fulltrúi hans talaði hér síðast, þá vaknar stundum sú spurning að hve miklu leyti sé um lúmska og markvissa stefnu að ræða, sveltistefnu Sjálfstfl. í heilbrigðismálum. Opinber þjónusta er látin drabbast niður, svelt, og verkefnin færð yfir í einkageirann eða einkarekstur. Þetta mætti kalla einkavæðingu aftan frá eða einkavæðingu gegnum bakdyrnar.

Hæstv. fjmrh. er kjarkmaður og hann ætti auðvitað að hafa manndóm í sér til að koma og svara því hver hin raunverulega stefna Sjálfstfl. er. Hver er hinn raunverulegi tilgangur Sjálfstfl.? Hæstv. ráðherra hefur í raun og veru verið yfirheilbrigðisráðherra í rúm sex ár og vaðið um kerfið með niðurskurðarhnífinn í annarri hendinni og tékkheftið í hinni. Það væri miklu meiri manndómsbragur að því að hæstv. ráðherra kæmi út úr skápnum og segði okkur hversu mikið Sjálfstfl. ætlar að einkavæða heilbrigðiskerfið. Á að skapa hér amerískt ástand?