Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:34:27 (544)

1997-10-16 11:34:27# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:34]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi kemur skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að rekstrarkostnaður sjúkrahúsanna í Reykjavík hækkaði um 4,4% á föstu verðlagi frá 1990--1995 þannig að kostnaður og útgjöld hafa hækkað.

Í öðru lagi hafa lyf lækkað sem betur fer, m.a. vegna þess að það er meiri samkeppni á lyfjamarkaðnum. (Gripið fram í.) Svo langar mig til að spyrja hv. þm. sem er ókyrr hér í sæti sínu tveggja spurninga: Í fyrsta lagi. Finnst honum eðlilegt að það sé mismunað eftir því hvort menn láta gera aðgerðir á sér innan sjúkrahúsa eða utan sjúkrahúss? Skiptir þá ekki efnahagur máli? Þannig er það í dag. Á að leiðrétta það? Þar sem hann tekur undir það með öðrum að kjarasamningar séu í uppnámi, m.a. vegna þess að ekki hafi verið samið við lækna, vil ég spyrja hv. þm. hve miklu meira vill hann láta borga læknum umfram þá sem eru t.d. sem eru í BSRB? Ég er ekki að tala um krónur heldur í hlutfalli. Um það snýst þessi deila. Hve miklu meira eiga læknar að fá en þeir sem starfa í röðum BSRB? Það væri gott að fá svar við þessum spurningum.