Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:35:46 (545)

1997-10-16 11:35:46# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:35]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Lyfjakostnaður fyrir einstaklinga í landinu, fyrir sjúklinga, hefur aukist. Hann hefur aukist stórlega og sýnt er fram á það í athugunum sem gerðar hafa verið að fólk er farið að neita sér um lyf. Það er óhugnanlegt þegar ráðamenn þjóðarinnar eru komnir svo úr tengslum við þjóð sína að þrátt fyrir að þessar staðreyndir liggi á borðiu þá lesa þeir upp úr statistik nánast eins og róbótar. Þetta er óhugnanlegt. Síðan á að stilla mér upp við vegg og spyrja hvert ég vilji að hlutfallið verði. Ég vil stuðla að sem mestum kjarajöfnuði. Eða heldur hæstv. fjmrh. að það sé ósk mín að láglaunafólki inni á sjúkrahúsum þessa lands sé haldið á þeim kjörum sem það býr við? Það er vegna kröfu fjmrn. Það er vegna þrjósku þeirra sem þar stýra ferðinni að ekki hefur tekist að færa kjörin til betri vegar.