Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:54:02 (552)

1997-10-16 11:54:02# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), LMR
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:54]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Sjálfstfl. stóð frammi fyrir því vorið 1991 að tryggja yrði gífurlegt aðhald á öllum sviðum ríkisfjármála, velferðarmála sem öðrum málaflokkum. Það var erfitt fyrir okkur mörg að leggja upp í slíka ferð, ekki síst í heilbrigðismálum þar sem við blasti sú staðreynd og gerir reyndar enn, að þörf og kröfur til aukinnar og bættrar þjónustu í þessum efnum mundi aukast stórlega vegna fjölda aldraðra og aukinnar þjónustu og bættrar tækni í heilbrigðisþjónustu sem í flestum tilvikum gefur möguleika á að bæta líðan fólks, auka afköst en þá einnig að auka kostnað eins og komið hefur fram hér í dag.

Í þessari þröngu efnahagsstöðu var ekki um annað að ræða en auka enn aðhald og hagræðingu og huga að nýjum valkostum. Í samvinnu við heilbrigðisstéttir hefur tekist að reka heilbrigðisþjónustuna á undanförnum árum með auknum afköstum og gæðastaðli sem hefur verið einn hinn besti í heimi eins og skýrsla OECD vitnar um. Væntanlega erum við einnig að uppskera nú eins og til var sáð með efnahagsaðgerðum sem leyfa okkur aukin framlög til þessa málaflokks.

Ég er ekki komin hér til þess að ræða það sem við okkur blasir í frv. til fjárlaga í dag heldur fyrst og fremst að ræða stefnuna í heild og stefnuna sem við gætum séð í framtíðinni með tilliti til þess sem gerst hefur á undanförnum árum og vil þá benda á að heilbrigðisþjónustan eða öllu heldur framkvæmd eða skipan hennar hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Slíkt á þó ekki einungis við um okkur Íslendinga heldur höfum við fylgt þróun sem á sér stað alls staðar um hinn vestræna heim. Sjúkrahús hafa breytt um áherslur eða hlutverk og eru nú fyrst og fremst aðgerða- og bráðameðferðarstofnanir með stuttan meðallegutíma. Eftirmeðferð og hjúkrunarþjónusta hafa færst á endurhæfingarstofnanir, til hjúkrunarstofnana eða í heimahús og svo mætti lengi telja.

Þrátt fyrir aukin afköst og gæði erum við ekki sátt við það sem gert er. Það er líka eðlilegt hjá þjóð sem gerir kröfu til sjálfrar sín að huga stöðugt að breyttri skipan við örar breytingar. Heilbrigðislöggjöfin sem við styðjumst við nú er í grundvallaratriðum byggð á 30 ára gömlum lögum sem voru barn síns tíma en hafa fram að þessu mótað stefnu okkar. Þessi lög endurspegluðu byggðamynstur þess tíma, vanda við að fá faglegt fólk til starfa og væntingar um að byggð færi jafnvel vaxandi í dreifbýli ef velferðarþjónusta væri fyrir hendi. En lögin lögðu einnig áherslu á frumheilsugæsluna og halda þar enn fullu gildi. Mikið vatn hefur síðan runnið til sjávar og með bættri tækni, breyttri samsetningu þjóðarinnar og auknum samgöngum og kröfum er nú kallað á breytingu sem mótast af samfélagi nútímans og þeirri framtíðarþróun sem fram undan er.

Þeim kröfum hefur einnig verið svarað með aðgerðum síðustu ára. Þar má nefna breytingar á rekstrarháttum bráðasjúkrahúsa, ekki síst í Reykjavík, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa sem nú sinnir ýmsum þáttum sem unnin voru innan sjúkrahúsanna og ekki síst þjónustu við aldraða sem tekið hefur stakkaskiptum með meginþungann á Reykjavíkursvæðinu. Breytingar í heilbrigðisþjónustu undanfarinna ára eða áratuga hafa þó ekki fylgt samtíðarþróun. Þær hafa verið gerðar miðað við fyrirkomulag og stefnu fyrri tíma sem bundið hefur þá sem starfa við þjónustuna á klafa úreltrar stefnu og löggjafar sem gengur út frá miðstýringu og samþykki ráðuneytisins á hverjum tíma í stað þess að bregðast skjótt við aðstæðum hverju sinni.

Við umræður og endurskoðun á gildandi löggjöf hefur því miður ekki tekist betur en svo að gerðar hafa verið sífelldar endurbætur í stað þess að fylgja þeirri þróun sem orðið hefur annars staðar í þjóðfélaginu með sveigjanleika, viðbragðsflýti og auknu valfrelsi. Með aðhaldi og aðgerðum síðustu ára hafa nýjar áherslur verið knúnar fram. Ég tel að sú stefna sem við höfum tekið sé í takt við tímann þótt margt sé óunnið.

Hins vegar er nauðsynlegt að endurskoða löggjöfina í heild og finna henni þann farveg að hún þjóni sem rammi utan um heilbrigðisþjónustuna en stýri ekki rekstri þjónustunnar nánast í smáatriðum eins og oft vill verið hafa að undanförnu.

Það þarf að endurskoða hlutverk og rekstur heilsugæslunnar þannig að hún geti sem best þjónað þörfum almennings. Núna eru gerðar sífellt meiri kröfur til þessarar þjónustu og hún þarf að fá tækifæri til þess að sinna auknu og breyttu hlutverki. En heilsugæsla nútímans þarfnast ekki miðstýringar. Hún þarfnast ekki endilega ríkisstarfsmanna eða njörvaðra samninga. Hún þarf frelsi til að sinna þeim skyldum við almenning sem krafist er og mæta kröfum til gæða sem gerðar eru á hverjum tíma. Nútímaþjónusta verður að fá tækifæri til að gera þær breytingar sem þörf er á með frelsi í rekstrarformi og heilbrigðri samkeppni hvar sem henni verður við komið.

Nýskipan heilbrigðisþjónustunnar hefur verið mjög í deiglunni. Þar hefur verið deilt um gildi sameiningar stóru sjúkrahúsanna í Reykavík með tilliti til kostnaðar, faglegrar þróunar og valfrelsis. Einnig hefur verið rætt um rekstrarform sjúkrahúsanna, fjárhagslegt sjálfstæði einstakra deilda, rekstur og rekstraraðila. Nýlega kom fram enn ein skýrslan um það efni. Allar slíkar athuganir eru af hinu góða og fagna ég faglegri umræðu um það mál. En ég vara við því að flana að ákvörðun um þær tillögur sem þar birtast. Nauðsynlegt er að melta hugmyndirnar og vinna með þeim sem þeim tengjast.

Við höfum nú nýlega sameinað tvö af stærstu sjúkrahúsum landsins og enn er ekki séð fyrir endann á faglegum umbótum og þróun, hvað þá heldur sparnaði sem af hefur hlotist. Hitt er þó vitað að við sameiningu tveggja stofnana með mismunandi svokallaða eiginstofnanamenningu má ávallt búast við mismunandi sjónarmiðum og vinnubrögðum sem þurfa að slípast saman líkt og gerist í annarri náinni sameiningu og gerist ekki í einni hendingu.

Ég ætla að ljúka máli mínu en vil þó benda sérstaklega á þær umræður sem hafa verið um sjúkrahúsmálin á undanförnum árum því að ég tel að þar hafi ekki skipt máli hver vermt hefur ráðherrastólana hverju sinni heldur afl þeirra sem vilja sameiningu stofnana og finna rök sem helga meðalið. Í þeim efnum tel ég að við þurfum að íhuga okkar mál og ræða þær hugmyndir sem fram hafa komið að undanförnu mjög gaumgæfilega.