Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 12:33:21 (561)

1997-10-16 12:33:21# 122. lþ. 11.3 fundur 98. mál: #A virðisaukaskattur# (sala til útlendinga) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[12:33]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, en þetta frv. er 98. mál og er að finna á þskj. 98.

Í frv. er lögð til breyting á ákvæðum virðisaukaskattslaganna um skattskyldu vegna sölu á þjónustu til erlendra aðila en með lögunum nr. 55/1997, sem öðluðust gildi 1. júlí í ár, voru lögfestar nýjar og strangari reglur um slíka sölu og voru gerðar ýmsar breytingar er lutu að afdráttarlausari ákvæðum skattskyldu. Breytingin fólst í því að í stað heimilda til að selja þjónustu til erlendra án skatts var kveðið á um endurgreiðslur í lögunum en það fyrirkomulag fylgir meginstefnu virðisaukaskattslaganna sem eru mjög lítið undanþæg.

Það fyrirkomulag, sem ákveðið var í þessum nýsettu lögum, hefur nokkuð verið gagnrýnt af hálfu hagsmunaaðila, þ.e. þeirra sem selja að jafnaði þjónustu til erlendra aðila. Helstu umkvartanir lúta að því að það krefjist meiri fyrirhafnar af hálfu hins erlenda aðila að þurfa að greiða virðisaukaskatt af keyptri þjónustu og sækja síðan um endurgreiðslu en fá þjónustuna afhenta án virðisaukaskatts. Með frv. er lagt til að fyrirkomulag skattmeðferðar á þjónustu við erlenda aðila, sem hafa ekki starfsstöð hér á landi, verði fært til fyrra horfs í meginatriðum og um leið til samræmis við þær reglur sem gilda annars staðar í Evrópu en víðast hafa þessar reglur verið færðar í það horf sem hér er lagt til.

Verði frv. að lögum er heimilt að halda utan skattskyldrar veltu sölu á ákveðnum þjónustugreinum til aðila búsettra erlendis. Hér er fyrst og fremst verið að hugsa um verkfræðinga og lögfræðinga sem þjóna erlendum aðilum sem sækja um einkaleyfi hér á landi. Til þess að koma í veg fyrir pappírsrask, því að það er tiltölulega auðvelt að fylgjast með þessu, er þetta lagt til og þegar haft er í huga að undanþágur í þessu sambandi tíðkast annars staðar var talið eðlilegt að flytja frv.

Þá er lagt til í frv. að reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna verði breytt þannig að endurgreiðsluheimildin miðist við aðila sem búsettir eru erlendis en ekki eingöngu erlenda ferðamenn eins og er samkvæmt núgildandi ákvæðum. Tilgangur breytingarinnar er að gera Íslendingum búsettum erlendis kleift að kaupa vörur á Íslandi án virðisaukaskatts og taka með sér úr landi á sama hátt og erlendir ferðamenn.

Hér er líka verið að samræma lög lögum annarra landa og má geta þess að t.d. í Danmörku, þar sem ég hygg að margir hv. þingmenn þekkja til, er reglan sú að Danir sem eru búsettir erlendis geta nýtt sér virðisaukaskattsfrádráttinn.

Þess ber að geta þegar fjallað er um þessi mál að þau eiga eftir að breytast heilmikið á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég hygg að á næstu árum verði stefnt að því eftir tvö ár, kannski líður lengri tími, en þá má gera ráð fyrir því að slíkar reglur falli niður á milli landanna innan Efnahagsbandalagsins og að skattareglur verði meira samræmdar en er í dag.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara í einstakar greinar frv. Það er í sjálfu sér einfalt og ég veit að hv. efh.- og viðskn. þekkir þessi atriði og mun að sjálfsögðu skoða þau betur í nefnd. Ekki er talið að breytingin hafi í för með sér áhrif á ríkissjóð vegna þess að í raun gátu þeir aðilar sem um ræðir fengið frádrátt og þeir sem bætast við í hópinn, þ.e. Íslendingar, sem búsettir eru erlendis og koma í heimsókn til landsins, mundu sjálfsagt að jafnaði ekki kaupa þessar vörur hér ef þeir þyrftu að borga virðisaukaskattinn að fullu. Við gerum því ekki ráð fyrir að ríkissjóður tapi tekjum af þessu frv. enda hefði sjálfsagt verið erfiðara að fá flutningsmann til þess að flytja frv. ef það hefði orðið raunin.