Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 12:38:30 (562)

1997-10-16 12:38:30# 122. lþ. 11.3 fundur 98. mál: #A virðisaukaskattur# (sala til útlendinga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[12:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fagna framkomu frv., einkum þeim lið sem lýtur að breytingu á virðisaukaskattsuppgjöri aðila sem selja þjónustu úr landi. Í ljós hefur komið að það endurgreiðslukerfi, sem sett var á með lagabreytingum og tók gildi í sumar, hefur skapað óþarfaóhagræði og óþarfaumstang fyrir þá aðila sem selja þjónustu af þessu tagi. Í því sambandi felst einnig ákvæði um fjárbinding sem kann að verka íþyngjandi eða samkeppnishindrandi og mismuna íslenskum aðilum.

Efh.- og viðskn. hafði alls ekki í huga að leggja stein í götu viðskipta af þessu tagi þegar lagabreytingarnar voru gerðar og ég er sannfærður um að þar er vilji til að skoða það að hverfa til fyrra horfs í þessum efnum og hafa þessi viðskipti á þjálla formi. Ég hygg að undanþága eða niðurfelling sé á flestan hátt og örugglega miklu einfaldari í framkvæmd. Þyki mönnum á skorta um eftirlit í þeim efnum má væntanlega finna aðrar aðferðir til að bæta það en fara út í að krefja um skattinn og endurgreiða hann síðan með tilheyrandi umstangi og pappírsveseni.

Það sem hefur komið á óvart, a.m.k. þeim sem hér stendur, er hversu gífurlega umfang starfsemi af þessu tagi og útflutningur á þessari tegund þjónustu hefur stóraukist. Fyrir fáeinum árum hefði væntanlega ekki verið mikið tiltökumál að viðhafa það fyrirkomulag sem lögfest var, þ.e. að endurgreiða einfaldlega skattinn í þeim fáu tilvikum sem um slík viðskipti var að ræða en því er ekki að heilsa í dag því að umfang viðskipta af þessu tagi hefur vaxið ótrúlega hratt.

Varðandi seinni liðinn um að gera þá breytingu á reglum um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna að hún taki einnig til Íslendinga búsettra erlendis get ég út af fyrir sig verið sammála því einnig að það sé ekki óeðlileg breyting ef um varanlega búsetu Íslendinga er að ræða erlendis í þeim skilningi að þeir séu orðnir skattskyldir íbúar í öðrum löndum. Þá má segja að eðlilegt sé að þeir séu í skattalegu tilliti meðhöndlaðir hér eins og um erlenda ríkisborgara væri að ræða. Ég þekki ekki nákvæmlega til fyrirkomulagsins í Danmörku en eina spurning mín væri sú hvernig framkvæmdinni yrði háttað varðandi það að nú er framvísan vegabréfs og farseðils úr landi yfirleitt eina skilyrðið sem sett er fyrir endurgreiðslu. Ég hygg að það hljóti að vera óhjákvæmilegt að menn framvísi einhverjum skilríkjum, lögheimilisvottorði eða staðfestingu á varanlegri búsetu erlendis og fyrir því verður þá að sjálfsögðu að sjá í framkvæmdinni.

Hæstv. ráðherra nefndi stórmerkilegan hlut sem enn á að mestu eftir að taka til umræðu og það er sú staðreynd að innan Evrópusambandsins er ætlunin að leggja niður tollfrjálsa sölu og endurgreiðslur á sköttum af þessu tagi á næstu einu, tveimur árum ef ég man rétt. Ég hygg að fyrir aldamót sé ætlunin að þetta verði horfið og þá verða Ísland og Noregur í raun ein eftir innan hins Evrópska efnahagssvæðis sem eru ekki aðilar að tollabandalagi Evrópusambandsins og geta þá eftir sem áður væntanlega ástundað endurgreiðslu af þessu tagi, verið með skattfrjálsa verslun eða fríhafnarverslun o.s.frv., að vísu að viðbættum Álandseyjum sem fengu sérstaka undanþágu einkum vegna tollfrjálsrar verslunar um borð í ferjum sínum og farþegaskipum.

Sú staða er býsna merkileg sem er þar með að koma upp og ég hygg að ástæða sé til þess fyrir Ísland að taka til skoðunar hvernig verði best staðið að málum þegar þetta nýja fyrirkomulag gengur í garð í Vestur-Evrópu og ekki síður hvernig við Íslendingar getum nýtt okkur þá möguleika sem þetta kann að skapa að verða nánast einir þjóða í Vestur-Evrópu sem geta áfram boðið ferðamönnum upp á þessu viðskipti. Í því sambandi er maður náttúrlega að hugsa um ferðaþjónustu og aðra möguleika sem því kunna að tengjast. Ég beini því til hæstv. fjmrh. í leiðinni að að þessum tímamótum verði hugað.