Ríkisreikningur 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 12:44:28 (563)

1997-10-16 12:44:28# 122. lþ. 11.4 fundur 97. mál: #A ríkisreikningur 1996# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[12:44]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1996 en þessi reikningur var lagður fyrir Alþingi með bréfi fjmrh. til forseta þingsins í júlí 1997. Ég vil af þeirri ástæðu fyrst nefna það sem ég held að sé mjög mikilvægt í þessu sambandi og það er að okkur sem hafa látið sig þessi mál varða, það er ekki einungis fjmrn. heldur Ríkisendurskoðun, ríkisbókhald, áður og fyrr yfirskoðunarmenn ríkisreikninga, og allir þeir aðilar sem koma að þessu verki, hefur tekist á umliðnum árum að leggja fram ríkisreikning miklu fyrr en áður tíðkaðist.

Um það leyti sem ég kom í fjmrn. hygg ég að uppsafnaður fjöldi ríkisreikninga hafi verið átta eða níu ríkisreikningar eða allt frá byrjun síðasta áratugar sem þurfti að renna í gegnum þingið eins og kallað var. En með þeim hætti sem nú tíðkast og vonandi verður til frambúðar þá er hægt jafnvel á vorþingi að leggja fram ríkisreikning og hafa hann til samanburðar þegar fjárlög verða lögð fram að hausti. Þeim mun frekar getur þetta orðið stjórntæki fyrir ríkissjóð þegar fjárlög íslenska ríkisins verða samkvæmt fjárreiðulögunum sett fram á svokölluðum rekstrargrunni og auðvelt er að gera samanburð á reikningi og fjárlögum.

Á árinu 1996 nam tekjuhalli ríkissjóðs 8,7 milljörðum kr. eða 6,8% af tekjum ársins. Árið á undan nam hallinn 15,2 milljörðum kr. eða 13,2% af tekjum þess árs. Tekjuafkoman batnaði því töluvert á milli ára. Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs nam 12 milljörðum kr. á árinu 1996 sem jafngildir 2,5% af landsframleiðslu ársins samanborið við 18,5 milljarða kr. árið 1995 eða um 4,1% af landsframleiðslu þessa árs. Lánsfjárþörfin lækkaði því um 6,5 milljarða kr. milli ára.

Tekjur ríkissjóðs námu alls 128,3 milljörðum kr. á árinu 1996 eða um 26,4% af landsframleiðslu ársins. Frá árinu á undan hækkuðu þær um 14,1 milljarð kr. eða um 12,3%. Tekjur af virðisaukaskatti hækkuðu um 4,8 millj. kr., af tekjuskatti og eignarskatti um 4,4 millj. kr., af tryggingagjaldi um 2 milljarða kr., skattar af vöru og þjónustu um 1,7 milljarða kr. og af öðrum sköttum hálfan milljarð kr. Arðgreiðslur og aðrar tekjur hækkuðu um 0,7 milljarða kr.

Tekjurnar skiptust þannig á árinu 1996 að beinir skattar námu 23,4% en óbeinir skattar voru tæplega 70% og fjármunatekjur síðan 6,2% og aðrar tekjur 0,6%. Af beinum sköttum er tekjuskattur veigamestur eða fimmtungur af heildartekjum ríkissjóðs en virðisaukaskattur var sem fyrr helsti tekjustofn ríkissjóðs eða 36% af heildartekjum en innflutnings- og vörugjöld námu 15,3% og tryggingagjöld 10,6%.

Virðulegi forseti. Full ástæða er til að benda á að samsetning skatttekna hér á landi er talsvert önnur en í nágranna- og viðskiptalöndunum. Nettótekjur af tekjusköttum eru litlar en tekjur af viðskiptum og þjónustu eru miklar. Þetta einkennir skattkerfi okkar ásamt nokkrum öðrum hlutum sem hafa verið til umræðu á undanförnum dögum. Ef við lítum á gjöldin þá námu þau 137 millj. kr. sem er 28,2% af landsframleiðslu ársins, gjöld ríkissjóðs hækkuðu um 7,6 milljarða eða um 5,9% á milli ára. Af einstökum hækkunum á milli ára má nefna yfirtöku á lífeyrisskuldbindingum Pósts og síma, þ.e. um 1,7 milljarðar kr., framlög til tryggingamála um 1,4 milljarðar kr., á Vestmanneyjaferjunni Herjólfi um 1,4 milljarðar kr., framlög til grunnskóla um 1,1 milljarð kr. og til framhaldsskóla um 0,8 milljarða kr. Á móti lækkaði fjármagnskostnaðurinn um 800 millj. Framlög til viðhalds og fjárfestingar hjá Vegagerðinni um 600 millj. kr. og Atvinnuleysistryggingasjóðs um 200 millj. kr. Loks hækkuðu sértekjur stofnana um 1,3 milljarða á milli ára en í því felst lækkun á heildargjöldum ríkissjóðs.

Sé hins vegar litið til greiðsluafkomunnar á árinu 1996 var tekjuhalli ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi lægri en árið áður. Hann lækkar úr 12 milljörðum kr. í greiðsluuppgjöri. Virðulegi forseti, ef ég má endurtaka þetta svo að þetta sé alveg skýrt, þá lækkar tekjuhalli ríkissjóðs úr 12 milljörðum kr. í greiðsluuppgjöri í 8,7 milljarða kr. í reikningi eða um 3,3 milljarða kr. Til að gera aðeins grein fyrir því hver munurinn er, því að hér er um tvenns konar uppgjörsaðferðir að ræða, þá eru helstu frávikin á milli greiðsluuppgjörs og lokauppgjörs ársins 1996 að lífeyrisskuldbindingar ársins umfram greiðslu til lífeyrissjóða eru 2,7 milljarðar kr., yfirtaka ríkissjóðs á hluta af lífeyrisskuldbindingum Pósts og síma að fjárhæð um 1,7 milljarðar kr. og kaup ríkissjóðs á Herjólfi með yfirtöku á áhvílandi lánum skipsins um 1,4 milljarðar kr. Eins og fram kom í umræðum um fjárlagafrv. eru sumar upphæðir, sérstaklega er snerta verðlagsuppfærslur eða launauppfærslur í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, færðar um endurmatsreikning og síðan yfir á efnahagsreikning ríkissjóðs.

Það sem hins vegar skiptir miklu máli er að vaxtagreiðslur ársins urðu verulega meiri en vaxtagjöldin eða sem nemur 8,5 milljörðum kr. Með öðrum orðum eru vaxtagreiðslurnar á greiðslugrunni miklu meiri heldur en vaxtagjöldin sem sýnd eru í lokauppgjöri. Munurinn skýrist í aðalatriðum á því að á árinu 1996 var ákveðið að greiða upp þrjá flokka spariskírteina frá árunum 1984--1986 fyrir gjalddaga þeirra en skírteinin báru 8--9% raunvexti og áttu að endurgreiðast í síðasta lagi árið 2000 en heimilt var að segja þeim upp fyrir lok gjalddaga þannig að þau bæru ekki vexti eða verðbætur eftir það.

Á þessi spariskírteini hafa safnast upp verulegar fjárhæðir í áföllnum vöxtum í gegnum árin en þeir hafa verð gjaldfærðir jafnóðum í ríkisreikningi árið eftir en komu í einu lagi til greiðslu við innlausn skírteinanna í greiðsluuppgjörinu fyrir árið 1996. Heildarandvirði innlausnarinnar nam 17,3 milljörðum kr. á árinu 1996. Þar af voru vextir 10,1 milljarður kr. og afborganir 7,2 milljarðar kr.

Tafla á bls. 6 í frv. sýnir vaxtagjöld og vaxtagreiðslur ríkissjóðs og ég er sannfærður um að allir hv. þingmenn sem eru viðstaddir átta sig á upptalningunni enda mjög vel kunnugir bókfærslu og framsetningu þessara reikningsgrunna í fjárreiðum ríkisins.

Virðulegi forseti. Skuldir ríkissjóðs í árslok 1996 námu 239 milljörðum kr. eins og skuldir ríkissjóðs eru settar upp en að teknu tilliti til lánveitinga voru þær 168 milljarðar kr. Í hlutfalli við landsframleiðslu ársins námu skuldir ríkissjóðs 49,2% í árslok 1996 samanborið við 51,5% árið 1995. Skuldir ríkissjóðs umfram lánveitingar námu hins vegar 34,6% af landsframleiðslu í árslok 1996 en voru 34,4% árið á undan. Þess ber að sjálfsögðu að geta, sem öllum er kunnugt, að landsframleiðslan hefur heldur vaxið á milli ára þó að það nægi engan veginn til skýringa á því sem hér hefur verið sagt.

Ég hef tæpt á helstu stærðum í fjárhag ríkissjóðs á árinu 1996 en í ríkisreikningi er að finna ítarlegar sundurliðanir og skýringar á einstökum liðum ríkisfjármálanna. Fjölmargir hafa haft samband við ráðuneytið og lýst því yfir að sú breyting sem gerð var á framsetningu ríkisreikningsins á síðasta ári, þ.e. árinu 1995, hafi verið til bóta þar sem annars vegar er um að ræða yfirlitshefti um fjárreiður ríkisins og hins vegar talnabálkur í stærra hefti en það er svipað snið og er nú viðhaft um framlagningu fjárlagafrv.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að lokinni umræðunni að gera þá tillögu að málinu verði vísað til hv. fjárln. og til 2. umr.