Ríkisreikningur 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 12:59:53 (565)

1997-10-16 12:59:53# 122. lþ. 11.4 fundur 97. mál: #A ríkisreikningur 1996# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[12:59]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir þessa ræðu hans. Ég er algerlega sammála því sem kom fram hjá hv. þm. og hef reyndar eins og hann látið það koma fram oftsinnis áður. Hv. þm. þekkir ríkisreikning betur en flestir aðrir þar sem hann var einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings síðustu árin sem það embætti var til. Það er hárrétt hjá honum að það var auðvitað úrelt fyrirkomulag sem þar var stundað og hafði verið gert áratugum saman ef ekki árhundruðum. En það var ófært og er ófært að skilja mál þ.e. endurskoðun ýmsa eftir í því horfi sem hv. Alþingi gerir í dag. Það er ekki heldur gott, og ég bið nú hæstv. forseta velvirðingar á því þegar ég nefni fjárln., að fjárln. sé að endurskoða eða fara yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun er endurskoðun almennings, þingsins, og það er eðlilegt að hún fari fram. Hún á m.a. að fara fram á því ferli sem á sér stað þegar fjárlagafrv. og fjáraukalagafrv. koma frá framkvæmdarvaldinu inn til þingsins, verða fyrir breytingum sem eru venjulegast að frumkvæði fjárln. frekar en einstakra þingmanna, og sjálfsagt má gera ráð fyrir því í framtíðinni að réttur einstakra þingmanna takmarkist frekar en kannski fari um fjárln. í meira mæli en hingað til hefur verið. Þá þarf Ríkisendurskoðun auðvitað að hafa svigrúm til þess að rannsaka allt ferlið og önnur nefnd en fjárln. að taka málið fyrir fyrir hönd þingsins og skila þá áliti ef þörf krefur. Þetta á sérstaklega við um þau mál sem hv. þm. nefndi en jafnframt er óþolandi hve mikil óvissa það er hverjir geta kallað eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar á hverjum tíma og síðan hvaða stöðu slík skýrsla hefur þegar hún hefur verið lögð fram því oft vekur skýrslan fleiri spurningar en hún svarar. Þess vegna tek ég heils hugar undir það sem hv. þm. sagði að það þarf að vera aðili, helst þingkjörin nefnd, ein af fastanefndum þingsins, sem tekur viðkomandi skýrslu og gefur álit til Alþingis ef hún telur að þess þurfi. Það álit getur þá verið með ábendinum, beinum till. til þál. eða jafnvel brtt. að lögum, eftir atvikum, þannig að farið sé með þessi mál eins og gerist í nágrannalöndunum, t.d. í Noregi þar sem svona ,,kontrollkomité`` starfar. Ég þakka hv. þm. fyrir að leggja þetta fram í þessari umræðu og hygg að ekki sé mikill munur á skoðunum þingmanna sem láta sig þessi mikilvægu mál varða sem því miður eru ekki margir hér í dag eins og sést á auðum bekkjunum. En málið er engu að síður eitt mikilvægasta málið sem þingið á að fjalla um.