Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 14:22:10 (570)

1997-10-16 14:22:10# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[14:22]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær upplýsingar sem koma fram hjá formanni félmn. og efast ekki um að nefndin hafi farið yfir þessa skýrslu. En það sem ég átti við er að mér finnst þurfa að fylgja því betur eftir. Mér hefði t.d. í þessu tilviki fundist að félmn. hefði átt að skila aftur skýrslu um yfirferð sína á þessu máli til þingsins og mér finnst að það hefði líka átt að vera hlutverk nefndarinnar og fleiri nefnda sem fjalla um skýrslu og stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar að fylgja því þá eftir.

Við nefndum hér ákveðið dæmi varðandi Byggingarsjóð verkamanna. Mér hefði fundist að það væri þá hlutverk félmn. í þessu tilviki að beina því til annaðhvort fjárln. eða viðkomandi ráðuneytis að fara ofan í og fylgja eftir þeim ábendingum sem koma fram varðandi stöðu sjóðsins svo við tökum það sérstaklega. Það voru auðvitað ýmsar aðrar ábendingar sem þarna komu fram varðandi stjórnsýsluendurskoðunina hjá Húsnæðisstofnun en mér finnst vanta að nefndirnar, ekki bara félmn., ég er að tala um nefndir þingsins almennt, fylgi ábendingum fast eftir. Ef þær telja ábendingar Ríkisendurskoðunar réttmætar, þá fylgi þær þeim ábendingum fast eftir til viðkomandi ráðuneytis og viðkomandi stofnana og Alþingi fái þá skýrslu um niðurstöðu nefndarinnar eftir að hún hefur fjallað um viðkomandi skýrslu Ríkisendurskoðunar.