Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 14:25:12 (572)

1997-10-16 14:25:12# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), GHelg
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[14:25]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka virðulegum ríkisendurskoðanda og starfsliði hans fyrir þá skýrslu sem hér er til meðferðar og ég vil nú benda hv. þingmönnum á að hér er um að ræða starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1996, en ekki skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga. Það mál kemur á annan hátt fyrir þingið og þess vegna ætla ég auðvitað ekki að ræða efnislega þau ágrip sem eru hér eins og lítið sýnishorn af athugasemdum Ríkisendurskoðunar í hinum ýmsu málaflokkum.

Ég ætla að leyfa mér að fagna því að farið hefur fram endurskoðun á vegum bresku ríkisendurskoðunarinnar á störfum Ríkisendurskoðunar okkar. Ég hlýt hins vegar að gagnrýna það, hæstv. forseti, að sama dag og þessi starfsskýrsla er til umræðu er lögð á borðið til okkar skýrsla hinnar bresku endurskoðunar, National Audit Office of the United Kingdom. Ég hefði gjarnan viljað lesa hana alla í gegn en hlaut auðvitað að hlaupa yfir það sem er á íslensku, því að ég er einfaldlega fljótari að fara í gegnum það, þegar ég hafði hálftíma til að lesa það til þess að gera mér grein fyrir hver niðurstaðan væri.

Í stuttu máli ber að fagna þeirri niðurstöðu. Það er ljóst að ánægja er með störf Ríkisendurskoðunar í þeirra herbúðum og það er ekki lítið hrós fyrir hina íslensku Ríkisendurskoðun. Það kemur mér raunar ekki á óvart þar sem ég hef haft tækifæri til að fylgjast allvel með störfum hennar í nokkur ár.

Ég vil hins vegar leyfa mér, hæstv. forseti, að nota þennan tíma til þess að minna á það sem stendur hér á bls. 13 í skýrslunni sem eru niðurstöður frá hinni bresku endurskoðun, en það er kafli sem heitir Sértækar niðurstöður. Þar er kannski fyrst til að taka, og ég tel ástæðu til að þessar athugasemdir komi fram í þingtíðindum, að í grein sem hér er merkt 7 er bent á að ,,í einu mikilvægu atriði sé munur á uppbyggingu reikningsskila ríkissjóðs í Bretlandi og á Íslandi þó að segja megi að þau séu að þróast í svipaða átt, sérstaklega hvað varðar breytingar í átt að rekstrargrunni í Bretlandi``.

Það sem vakti athygli mína er frekar þá seinni hlutinn: ,,Á Íslandi eru reikningsskil stofnana í A-hluta sett saman í einn ársreikning en í Bretlandi er gerður ársreikningur fyrir sérhvert ráðuneyti. Þessi munur endurspeglast m.a. í nokkrum mun á vinnubrögðum Ríkisendurskoðunar við fjárhagsendurskoðun ríkissjóðs og hjá NAO`` eða National Audit Office. Ég tel að hérna sé minnst á mikilvægt atriði vegna þess að ég tel að það sé miklu eðlilegra að hvert ráðuneyti fyrir sig sjái um sinn eigin ársreikning og sé ábyrgt fyrir honum. Ég held að það mundi t.d. vera miklu skýrara fyrir þingmenn til að fjalla um.

Nokkur önnur atriði ætla ég að gera að umræðuefni hér líka og þá helst það sem eru samskipti Ríkisendurskoðunar og Alþingis. Hér segir í grein sem merkt er nr. 22 að af samtölum við ríkisendurskoðanda, fjárln. og starfsmenn Alþingis sé það ljóst að Ríkisendurskoðun eigi góð samskipti við Alþingi og um þetta vitum við öll. Hins vegar er bent á að þrátt fyrir að ríkisreikningur ásamt áliti og skýrslu ríkisendurskoðanda sé formlega lagður fram til samþykktar á Alþingi, þá sé ekki til staðar neitt formlegt ferli sem tryggir að tekið sé tillit til ábendinga um annmarka og tillögur að leiðréttingum. Sannleikurinn er sá og það vitum við líka öll að það er allt of lítið gert af því, bæði af hálfu ráðuneytanna og hv. þingmanna, að fara nákvæmlega ofan í athugasemdir Ríkisendurskoðunar. Það eru fjölmörg dæmi um það, þótt það sé kannski ekki fallegt að segja það, að lítið sem ekkert hefur verið gert með athugasemdir Ríkisendurskoðunar. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að þannig verði áfram haldið. Það ber að taka þær athuganir alvarlega og reyna eftir fremsta megni að leiðrétta það sem þar er fjallað um.

[14:30]

Það lá nú við að það gæti valdið litlu brosi að líta í ágripin um hina ýmsu málaflokka í starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar því að þingmenn hefðu mátt lesa betur þessi örstuttu ágrip sem eru auðvitað ágrip úr lengri skýrslum í starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar áður en kastað var fram ýmsum fullyrðingum um fjárhæðir í umræðu hér í morgun um ástandið í heilbrigðiskerfinu. Ég er ansi hrædd um að þar hafi verið talað um tölur sem ekki komu alveg heim og saman við það sem stendur hér. Ég held nefnilega að það vilji brenna við að ráðuneytin kynni sér ekki allt of vel það sem Ríkisendurskoðun hefur að segja.

Ég vil hins vegar taka fram að hv. fjárln. hefur þann tíma sem ég hef setið þar tekið Ríkisendurskoðun og athugasemdir hennar grafalvarlega og átt við hana hið besta samstarf og ég vona að svo sé enn.

Ég fylgdist ekki af eðlilegum ástæðum með þeirri lagabreytingu sem fram fór á síðasta ári um Ríkisendurskoðun. En það er eitt atriði sem ég held að margir þeir sem komið hafa nálægt hv. fjárln. kannist við, þ.e. að borið hefur við að menn hafa gagnrýnt Ríkisendurskoðun fyrir að líta ekki einungis á endurskoðun á framkvæmd laga heldur jafnvel lögin sjálf. Ég skil að sumu leyti þær athugasemdir. Það eru auðvitað hárfín mörk milli þess að endurskoða framkvæmdarvaldið og síðan jafnvel löggjafarvaldið. En það er nú einu sinni svo og það hef ég margsinnis sagt að það er ákaflega erfitt fyrir Ríkisendurskoðun að stunda sína endurskoðun á framkvæmd fjárlaga án þess að líta til laganna sem þeir verða að sjálfsögðu að vinna eftir. Ég hef því aldrei séð neitt athugavert við það þó Ríkisendurskoðun benti á það sem hreinlega stenst ekki eða er æskilegt í lagasetningunni. En ég er ekki frá því að það þyrfti að skýra þessi mörk. Ég geri mér alveg grein fyrir að þau eru töluvert erfið. En það getur aldrei farið svo að Ríkisendurskoðun hljóti ekki að hafa skoðanir á lagasetningu ef hún er kannski mjög svo óheppileg fyrir ríkiskassann og þann hluta þjóðfélagsrekstursins sem þeir eiga að hafa eftirlit með.

Ég skal ekki hafa þessi orð mikið lengri. Ég þakka þó fyrir að hafa fengið að sjá skýrslu bresku ríkisendurskoðunarinnar á sama degi og þessi umræða fór fram. Það var betra en ekki neitt og ég fagna þeirri skýrslu. Ég vil að lokum endurtaka þakkir mínar til Ríkisendurskoðunar og starfsfólks hennar og setja fram þær óskir að samvinna milli Ríkisendurskoðunar og Alþingis haldi áfram að vera svo góð sem hún hefur verið og ekki síst við fjárln., en umfram allt að menn hugi alvarlega að því að tryggja með lögum að eftirfylgni sé með skýrslum Ríkisendurskoðunar, að það verði sannarlega farið eftir athugasemdum hennar. Þá held ég að ýmsu væri betur borgið í okkar samfélagi.