Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 14:34:30 (573)

1997-10-16 14:34:30# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[14:34]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. ræðumaður undirstrikaði nauðsyn þess að fara eftir athugasemdum Ríkisendurskoðunar og ég er honum alveg sammála um það. Þegar Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við einhverja ákveðna framkvæmd þá ber að taka tillit til þeirra. Hins vegar verður að hafa skýrt í huga að Ríkisendurskoðun markar auðvitað ekki pólitíska stefnu. Ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti á hverjum tíma gerir það. Ríkisendurskoðun á að draga fram afleiðingar slíkrar stefnu ef hún er slæm og hjálpa þingheimi til að átta sig á henni. Ríkisendurskoðun á að setja fram upplýsingar sem liggja til grundvallar stefnumótun, en það verður aldrei hlutverk Ríkisendurskoðunar að marka pólitíska stefnu, t.d. um Byggingarsjóð verkamanna eða aðra slíka hluti. Hún á að reiða fram upplýsingar um ákveðin atriði en síðan verður meiri hluti þingsins að draga sínar ályktanir af því og bera ábyrgð á þeirri stefnu sem mótuð er.