Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 14:36:10 (574)

1997-10-16 14:36:10# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[14:36]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt að Ríkisendurskoðun á ekki að móta pólitíska stefnu. Það hefur hún ekki gert og getur þakkað guði sínum fyrir að bera ekki ábyrgð á þeirri stefnu sem þjóðfélagið er nú rekið eftir.

Það sem ég átti kannski við þegar ég talaði um áhrif eða öllu heldur áhrifaleysi Ríkisendurskoðunar á lagasetningu, þá átti ég fremur við þegar fyrir kemur --- og það hefur komið fyrir, ekki síst í svokölluðum bandormum sem ég hef marggagnrýnt og eru ekki góð lagasetning --- að ákvæði hreinlega stangist á, annað af tveim geti ekki staðist, alla vega rekist þau ekki saman. Það hlýtur að geta komið upp sú staða að jafnvel Ríkisendurskoðun verði að benda á slíka hluti. En ég er alveg sammála hv. þm. Jóni Kristjánssyni að vitaskuld mótar Ríkisendurskoðun ekki pólitíska stefnu hverju sinni.