Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 15:32:18 (587)

1997-10-16 15:32:18# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:32]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst nú forseti þingsins að nokkru leyti taka undir með mér að það væri verið að takmarka eftirlitsmöguleika þingmanna við hlutafélagavæðingu að stofnunum og fyrirtækjum sem að hluta eða öllu leyti væru í eigu ríkisins. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi upplýsingalögin að sé rekstrarformi opinberra stofnana breytt í hlutafélag fellur hlutafélagið utan við gildissvið laganna eftir breytinguna. Með öðrum orðum, að þrátt fyrir upplýsingalögin þá hefur almenningur, þingmenn eða fjölmiðlar, ekki sama aðgang að þessum stofnunum, í því tilfelli sem við höfum verið að ræða, bönkum og Pósti og síma, eins og hann hafði áður. Hæstv. forseti bendir að vísu á að Ríkisendurskoðun hafi þennan aðgang að hlutafélögum. Það er rétt. En þá bið ég hann að svara spurningu minni: Ef ráðherra neitar þingmönnum um upplýsingar um starfsemi þessara stofnana, geta þingmenn þá leitað beint eða í gegnum forsn. til Ríkisendurskoðunar og óskað eftir að hún afli þeirra svara sem ráðherrarnir neituðu að veita um einhver tiltekin atriði í starfsemi stofnunarinnar? Ég bendi á að í þessari skýrslu forsrh. er verið að tala um mikla takmörkun. Það er verið að tala um að t.d. þar sem ráðherra fer með hlut ríkisins, getur hann ákveðið hvaða málefni það eru sem geti talist viðskiptaleyndarmál. Honum er ekki skylt og honum er jafnframt óheimilt gagnvart félaginu að gefa Alþingi upplýsingar sem hann telur að leynt eigi að fara --- sem hann telur að leynt eigi að fara --- starfskjör o.s.frv. Ef hann telur að það eigi að fara leynt þá ber honum ekki að gefa upplýsingar um þetta. Og honum er óskylt að gefa upplýsingar um ríkishlutafélag sem ekki koma fram í ársreikningi. Ef það kemur ekki fram í ársreikningi þá er honum ekki skylt að gefa upplýsingar sem um er beðið. Þess vegna spyr ég bara beinnar spurningar: Geta þingmenn leitað til Ríkisendurskoðunar um að fá svör við fyrirspurnum um hlutafélög sem ráðherrar hafa neitað að veita?